Í tilefni af 70 ára afmæli Menntaskólans að Laugarvatni, þann 12. apríl nk., ætlum við, í aðdraganda afmælisins, að birta vikuleg viðtöl við gamla nemendur Menntaskólans að Laugarvatni um þeirra upplifun af Menntaskólanum. Næstu þrír viðmælendur mynda það sem við kjósum að kalla hina heilögu Óskarsþrenningu. Þrenninguna skipa þrír ættliðir sem heita allir Óskar og hafa stundað nám við ML, Óskar H. Ólafsson, fyrrum kennari og aðstoðarskólameistari við ML, Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur í Hruna, og Óskar Snorri Óskarsson, núverandi nemandi við ML. Til aðgreiningar, verður svörum þeirra feðga stillt upp í aldursröð, sá elsti efst og tölunum I, II og III, skeytt aftan við nöfnin þeirra.
Hvaða ár varst þú í ML?
Óskar I: Ég hóf nám haustið 1951 og var í fyrsta útskriftarárgangi, ásamt níu öðrum piltum, vorið 1954.
Óskar II: Ég byrjaði haustið 1989 og útskrifaðist vorið 1993.
Óskar III: Ég byrjaði haustið 2020 og klára vonandi núna í vor.
Hvað tók við eftir ML?/Hvert er stefnan tekin eftir ML?
Óskar I: Ég fór beint úr ML í Háskólann og lærði sögu og landafræði en svo tók kennslan við. Fyrst í fjögur ár í Gagnfræðaskóla Keflavíkur 1958-62. Síðan var ég kennari í Héraðsskólanum á Laugarvatni og í Menntaskólanum að Laugarvatni frá 1962-1999, síðustu árin var ég aðstoðarskólameistari ML.
Óskar II: Eftir ML byrjaði ég í guðfræði í HÍ og kenndi samhliða fyrstu tvö árin við ML (eina önn) og við Héraðsskólann. Að loknu guðfræðiprófi var ég vígður prestur til Ólafsvíkur. Hef síðan starfað sem prestur á Akureyri og á Selfossi en síðan 2014 hef ég verið sveitaprestur í uppsveitunum og bý í Hruna í Hrunamannahreppi.
Óskar III: Stefnan er óljós en ég held að ég ætli mér á listasviðið, hvað sem það verður.
Hvaða sérstöðu telur þú að ML hafi samanborið við aðra menntaskóla á Íslandi?
Óskar I: Heimavistin og náið samband nemendanna.
Óskar II: Fámennur bekkjarskóli í sveit með heimavist og öflugt félagslíf.
Óskar III: Það eru auðvitað nemendurnir. Þó að endurnýjun verði á hverju ári í hópnum þá eru það krakkarnir sem eru merkilegastir.
Af hverju fórst þú í ML?
Óskar I: Ég hafði verið í Héraðsskólanum og var snemma ákveðinn í að verða kennari og til þess að svo mætti verða þurfti ég að taka stúdentspróf til háskólanáms og því lá það beint við að fara í ML.
Óskar II: Ég er fæddur og uppalinn á Laugarvatni svo þetta lá beint við.
Óskar III: Félagslífið og heimavistin, ekki spurning!
Áttu þér uppáhalds minningu úr skólanum?
Óskar I: Þar er af svo ótal mörgu að taka. Kennslustundir hjá Ólafi Briem íslenskukennara eru mjög eftirminnilegar.
Óskar II: Busavígslurnar gátu oft verið ævintýralegar og Ný danskrar böllin í matsalnum voru menningarlegir hápunktar í félagslífinu.
Óskar III: Hlátursköst inní herbergi með góðum vinum.
Hvernig upplifun var að fara að heiman og flytja inn á heimavist?
Óskar I: Mér líkaði það bara ágætlega. Við vorum fjórir saman á herbergi, fyrst í Grundinni og svo í Menntaskólahúsinu.
Óskar II: Ég var ekki á heimavistinni en dvaldi þar þó oft löngum stundum, að nóttu sem degi!
Óskar III: Það var stressandi fyrst. Fyrstu dagarnir voru erfiðir en þegar maður kynnist lífinu þarna þá langar manni ekkert að fara heim.
Ertu ennþá í sambandi við skólafélagana?
Óskar I: Já, við hittumst alltaf á 10 ára fresti og förum þá að Laugarvatni. En svo höfum við verið í ágætu sambandi þess á milli og höfum hist öðru hvoru í gegnum tíðina.
Óskar II: Já við hittumst náttúrulega á fimm ára fresti og þess á milli eru alltaf einhver samskipti.
Óskar III: Ég er með þeim öllum, alla daga og sumum allar nætur!
Hvers saknarðu mest við að vera í ML? /Hvers átt þú eftir að sakna mest við að vera í ML
Óskar I: Sambandsins við félaganna sem var mjög gott.
Óskar II: Þetta voru dásamleg ár sem gott er að eiga í minningunni.
Óskar III: Ég held að það muni verða hefðbunda vistarlífið. Að spjalla inní herbergi fram eftir nóttu eru kvöld sem sitja með manni lengi.
Hvernig telur þú að menntaskólagangan hafi mótað þig sem einstakling?
Óskar I: Það hefur gert mér auðveldara að umgangast fólk.
Óskar II: Hún lagði manni gott til í félagsfærni og samskiptum.
Óskar III: Hún hefur sannarlega mótað mig. Núna loksins getur maður talað almennilega við fólk.
Myndir þú mæla með því við sunnlensk ungmenni að fara í ML?
Óskar I: Alveg hiklaust! Sambandið á heimavistinni er svo náið og þar skapast vinátta sem endist ævilangt.
Óskar II: Ekki spurning! ML er skólinn!
Óskar III: Ó já. Þessi skóli er fyrir alla.