-3.4 C
Selfoss

Árshátíðir BES

Í síðustu vikunni fyrir páska voru haldnar árshátíðir í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri.  Fimmtudagskvöldið 30. mars reið 7. -10. bekkur á vaðið og hélt sína árshátíð með pompi og prakt.  Sú árshátíð hófst með hátíðakvöldverði í sal skólans á Stokkseyri, svo voru heimatilbúin skemmtiatriði frá bæði nemendum og kennurum og voru hláturtaugarnar þandar þar.  Að lokum var svo ball þar sem allir dönsuðu af miklum móð.  Að sjálfsögðu var myndahringur til að allir gætu tekið af sér myndir og átt skjalfestar minningar um þetta skemmtilega kvöld. Allt var til fyrirmyndar hjá unglingunum þetta kvöld og það er heiður að fá að skemmta sér með svona skemmtilegum ungmennum.

Föstudaginn 31. mars var svo komið að 1. -6. bekk, þau hafa á undanförnum vikum verið að æfa leikrit sem er samsett úr þekktum ævintýrum og leikritum.  Þarna stigu á svið ræningjar, prinsessur, bakarar, mýs, refur, úlfur, veiðimaður, dvergar, stelpur og strákar, tannpínupúkar og margir aðrir.  Þessi leiksýning rann fumlaust áfram eins í atvinnuleikhúsi og skemmtu áhorfendur sér vel en forráðamönnum var boðið að koma og horfa á.  Daginn áður hafði verið forsýning þar sem unglingastigið og elstu nemendur leikskólans mættu og skemmtu sér vel. Þegar leiksýningu var lokið söfnuðust allir saman og snæddu hátíðarhádegisverð í sal skólans.

Það var gaman að sjá á báðum árshátíðunum hvað allir skemmtu sér vel og undantekningalítið tóku allir þátt.  Vissulega settu veikindi í sumum tilfellum strik í reikninginn, en þannig er lífið víst. Þegar maður verður vitni að svona frábærum viðburðum sem nemendur bera hitann og þungann af  þá getur maður horft björtum augum til framtíðarinnar.  Ég hlakka að minnsta kosti til að horfa á eftir þeim út í lífið og fylgjast með sigrum þeirra á ýmsum sviðum.


Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri

Fleiri myndbönd