-5.5 C
Selfoss

Mottumarsdagurinn haldinn hátíðlegur í GK Bakarí

Vinsælast

Á föstudaginn 31. mars halda strákarnir í GK Bakarí Mottumarsdaginn hátíðlegan og steikja ástarpunga til styrktar Krabbameinsfélagi Árnessýslu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir taka þátt í átakinu og stefna ávallt á að skáka styrktarupphæð síðasta árs.

,,Við tökum þátt í tveimur styrktarátökum á ári, einu að hausti þar sem við bökum til styrktar Sigurhæðum og annað að vori til en þá leggjum við pungana á vogarskálarnar til styrktar Krabbameinsfélaginu,“ segir Kjartan. „Karlmenn eru margir gjarnir á að humma fram af sér heilsuna og okkur langar til að nota þennan vettvang til að hvetja alla, bæði punghafa og punglausa, til sjálfsskoðunar og leggja góðu málefni lið í leiðinni,“ segir Guðmundur, sem skartar enn mottunni sem var krýnd fegursta mottan í Mottumars 2021.  „Yfirvaraskeggið er orðið partur af persónunni. Það vakti mikla athygli til að byrja með, en ég er hræddur um að fleiri tækju eftir því núna ef það hyrfi einn daginn en veita veiðihárunum athygli í dag,“ segir Guðmundur og hlær.

Piltarnir benda á að hægt er að panta sex ástarpunga í poka fyrir 1.000 kr. sem sjálfboðaliðar Krabbameinsfélagsins keyra heim að dyrum á netfangið pontun2023@gmail.com og skora á fyrirtæki að slá tvær flugur í einu höggi, gleðja starfsfólkið í kaffipásunni á föstudaginn og styrkja Krabbameinsfélag Árnessýslu í leiðinni.

Nýjar fréttir