0.6 C
Selfoss

Menntskælingar vikunnar – Þórólfur Guðnason og Birna Arnbjörnsdóttir

Í tilefni af 70 ára afmæli Menntaskólans að Laugarvatni, þann 12. apríl nk., ætlum við, í aðdraganda afmælisins, að birta vikuleg viðtöl við gamla nemendur Menntaskólans að Laugarvatni um þeirra upplifun af ML. Næstu viðmælendur eru tveir doktorar, þau Þórólfur Guðnason, fyrrum sóttvarnarlæknir Íslands og Birna Arnbjörnsdóttir, doktor í málvísindum.

Hvaða ár varst þú í ML?

Þórólfur: 1969-1973

Brina: 1968-1972 (ár mikilla straumhvarfa í stúdentapólitík). Ein besta ákvörun lífs míns var að hætta á síðustu stundu við að fara í MR og fara í ML í staðinn.

Hvaða sérstöðu telur þú að ML hafi samanborið við aðra menntaskóla á Íslandi?

Þórólfur: Sérstaða ML að mínu mati felst einkum í sterku félagslífi og mikilli nánd nemenda sína á milli og nánd við kennara. Þar læra nemendur að standa á eigin fótum og taka tillit til annarra. Á mínum árum í skólanum voru líka mjög góðir og eftirminnilegir kennarar og býst ég við að svo sé enn í dag. Í svona umhverfi þroskast nemendur mjög hratt og öðlast færni og reynslu sem þeir búa að alla tíð. ML hentar hins vegar ekki öllum nemendum en það er  einnig þroskandi fyrir þá nemendur.

Brina: Þétt og samheldið samfélag sem eimir eftir af löngu eftir að námi lýkur og nær yfir alla Laugvetninga hvort sem þeir voru samtíma í ML eða ekki. „Þetta er Költ!“ Sagði einhver. Ótrúlega skemmtilegt félagslíf, tækifæri til þátttöku í fjölbreyttu félagsstarfi sem ekki gefst annars staðar og frábærir kennarar og skólameistarar (fyrrverandi og núverandi) sem hafa áhuga á menntun og velferð ungmenna.

Þessi mynd er frá árshátíð ML veturinn 1969-1970. Hér er verið að frumflytja hið þekkta Ástarljóð eða öðru nafni Pípan eftir þá Hafstein Guðfinnsson og Ragnar Inga Aðalsteinsson. Í kvartettinum voru frá vinstri: Viðar Jónsson, Þórólfur Guðnason, Unnur Bragadóttir og Hafsteinn Guðfinnsson.

Af hverju fórst þú í ML?

Þórólfur: Ég kom frá Vestmannaeyjum og ákveðin hefð fyrir því að nemendur þaðan færu á Laugarvatn. Auk þess fóru margir samnemendur mínir frá Vestmannaeyjum í ML þannig að var sjálfgefið.

Brina: Ég vildi prófa að vera í heimavist og vinir mínir og ættingjar voru Laugvetningar.

Áttu þér uppáhalds minningu úr skólanum?

Þórólfur: Enga uppáhaldsminningu en margar góðar og enga slæma. Margar minningar af kennurum og ekki hvað síst húsverðinum góða Benjamín Halldórssyni sem hefur verið óþrjótandi uppspretta minninga og spuna ýmiskonar. Svo eru margar góðar minningar frá félagslífinu og þátttöku í ýmsum uppákomum. Sterkustu minningarnar eru hins vegar af mörgum samnemendum.

Brina: Fámennið og nábýlið gerði það að verkum að það var margt brallað. Ég var virk í félagslífinu og lærði mikið af því bæði í með- og mótvindi. Söngsalur var hressandi og mikið tónlistarlíf, skemmtilegar vísindaferðir sem voru tilefni til ýmissa strákapara, náið sambýli við náttúruna m.a. ganga á Skjaldbreið í glampandi sól og meðfylgjandi epískum sólbruna, gönguferð á eldspúandi Heklu, og kennslustundir hjá frábærum ungum kennurum sem voru flestir nýkomnir úr námi erlendis með nýstárlegar hugmyndir um kennslu og menntun almennt.

Hvernig upplifun var að fara að heiman og flytja inn á heimavist?

Þórólfur: Það var ansi erfitt sérstaklega fyrstu mánuðina. Ég jafnaði mig hins vegar fljótt og eftir það var þetta tóm sæla.

Brina: Mér fannst mjög spennandi að fara í heimavistarskóla. Fyrsta árið var ég í herbergi með góðri vinkonu minni allt frá því á leikskóla og ég kynntist líka strax skemmtilegu fólki.

Ertu ennþá í sambandi við skólafélagana?

Þórólfur: Já miklu sambandi. Við strákarnir (lesist “sdráganir”) hittumst reglulega, rifjum upp gamla tíma, spilum músík og þrösum hæfilega. Dreypum einnig dátt á drykkjum. Ógleymanlegar stundir.

Brina: Heldur betur! Þarna eignaðist ég vini fyrir lífstíð. Vinirnir frá Laugarvatni eru enn uppistaðan í menningar- og líkamsræktarlífi mínu enn í dag. Stúdentar frá ML 1972 gerðu garðinn frægan í Georgiu á s.l. ári. Þar glumdi „Sá sem gekk í ML“ djúpt í Kákasusfjöllunum. Síðast í gær vorum við mörg úr ML saman í óperunni!

Sara, Benjamín húsvörður og Birna.

Hvernig telur þú að menntaskólagangan hafi mótað þig sem einstakling?

Þórólfur: Erfitt að segja en ég tel að árin í ML hafi eflt mína félagsfærni og samskiptahæfni. Ég lærði betur að taka tillit til annarra og meta mannlegan fjölbreytilega. Ég komst líka að því hverjir væru mínir styrkleikar og veikleikar. Svo má ekki gleyma því að þar hitti ég fyrir mína núverandi eiginkonu.

Brina: Ekki spurning að samnemendur og kennarar beindu mér á þá braut sem líf mitt tók. Þarna kynntist maður alls konar fólki sem víkkaði sjóndeildarhringinn. Þarna voru líka frábærir skólameistarar, Kristinn Kristmundsson og Jóhann S. Hannesson, kennarar eins og Þórir Ólafsson, Þór Vigfússon, Björn Ingi Finnsen, Kristján Árnason og Ólafur Briem sem kveiktu áhuga minn á tungumálum almennt og íslenskum málvísndum sérstaklega

Útskriftarhópurinn árið 1972.

Hvað tók við eftir ML?

Þórólfur: Eftir ML hóf ég nám í læknisfræði við HÍ. Ég flutti mig eftir nokkra mánuði í Háskólann í Árósum í Danmörku þar sem ég hélt áfram í læknanáminu. Ég lauk hins vegar námi í læknisfræði við HÍ 1981. Sérfræðinámi í barnalækningum og smitsjúkdómum lauk ég í Bandaríkjunum 1990 og flutti þá til Íslands. Ég starfaði sem barnalæknir á Barnaspítala Hringsins til ársins 2015 er ég tók við starfi sóttvarnalæknis á embætti landlæknis. Því starfi lauk í lok árs 2022. Nú er ég hins vegar kominn á eftirlaun en starfa í hlutastarfi í heilbrigðisráðuneytinu.

Brina: Fyrst í HÍ í ensku og frönsku, svo menntaskólakennsla, þá í MA nám í Bretlandi og svo í doktorsnám í málvísindum í Bandaríkjunum. Síðan starfaði ég í 18 ár í háskólum í Bandaríkjunum en kom heim fjórum börnum síðar árið 2000 og hélt áfram fræðastörfum og kennslu við HÍ. Þar stýrði ég m.a. þróun veftengds námskeiðs í íslensku sem öðru máli www.icelandiconline.com sem er margverðlaunað og yfir 100.000 manns hafa sótt. Ég er nú sest í helgan stein, eða þannig. Var reyndar að koma frá Grænlandi þar sem ég er hluti af alþjóðlegu teymi sem rannsakar nábýli dönsku og ensku og grænlensku í samanburði við stöðu dönsku og ensku í Færeyjum og á Íslandi. Og í næsta mánuði kemur út bók sem ég ritstýri ásamt öðrum um vesturíslensku í Kanada. Ég hef unnið með mörgum erlendum og innlendum fræðimönnum á starfsferlinum og var svo heppin að fá að vinna með núverandi skólameistara ML í MA verkefni og veit því hvað skólinn er í góðum höndum.

Hópurinn saman í ferð til Georgíu síðasta haust. Stúdentahópurinn er mjög náinn sem Birna telur að sé „sér Laugvetnskt“.

Myndir þú mæla með því við sunnlensk ungmenni að fara í ML?

Þórólfur: Ég mæli hiklaust með því, ekki bara fyrir sunnlensk ungmenni heldur fyrir öll ungmenni. ML er einstakur skóli og bíður upp á svo mikið meira en formlegt skólanám. Skólinn er þroskandi og þar eignast nemendur vini og félaga fyrir lífstíð. Það er ekki síður mikilvægt en það góða nám sem boðið er uppá.

Brina: Hiklaust!

Fleiri myndbönd