-0.5 C
Selfoss

Óútskýrð höggbylgja fannst á stóru svæði á Suðurlandi

Fólk veltir vöngum yfir undarlegri höggbylgju sem heyrðist og fannst á Árborgarsvæðinu, í Flóanum og í Þorlákshöfn á milli klukkan 18 og 19 í gær, þriðjudag. Umræða um þetta undarlega fyrirbrigði hefur skapast í Facebook-hópnum Íbúar á Selfossi og víðar á Facebook, þar sem fólk segist ýmist hafa fundið fyrir eða heyrt í þessum hvelli sem, eftir athuganir blaðamanns, virðist ekki eiga sér neinar haldbærar útskýringar. Veðurstofa Íslands staðfestir í samtali við dfs.is að engir skjálftar hafi mælst á svæðinu á þessum tíma og sömuleiðis segir Lögreglan á Suðurlandi að engar tilkynningar hafi borist þeim varðandi þennan undarlega hvell „við komum alveg af fjöllum,“ sagði lögreglumaður í samtali við dfs.is.

Tundurdufl, loftsteinn eða geimverur?

Mörg hafa sagt frá sinni upplifun af þessu fyrirbrigði. Einhver segjast hafa fundið sprengingu, ein sagði að þetta hefði hljómað alveg eins og þegar væri verið að sprengja í Ingólfsfjalli en fannst þetta þó heldur hærra en hljóðin sem hún hafði heyrt þaðan. Ein sagði að hún hefði haldið að einhver hefði keyrt á húsið hennar, á meðan önnur segist hafa haldið að nágranninn hafi verið að skella útidyrahurðinni. Mörg töldu að um undanfara jarðskjálfta hefði verið að ræða og „undirbjuggu sig fyrir risa jarðskjálfta“. Þá bendir einn á að tundurduflaslæðarar séu komnir til landsins og hugsanlega hafi tundurdufl sprungið á hafi úti og annar stingur upp á möguleikanum á loftsteini eða geimverum. Hvað olli vitum við ekki en munum halda lesendum uppfærðum eftir bestu getu, ef okkur berst til tíðinda einhver útskýring á því sem gerðist.

Fleiri myndbönd