-3.2 C
Selfoss

Því þyngra – því skemmtilegra

Ellen Helga Sigurðardóttir, 23 ára Hvergerðingur, gerði sér lítið fyrir og setti tvö Íslandsmet og sigraði sinn flokk í fyrsta Magnús classic Íslandsmóti RAW í kraftlyftingum sl. sunnudag. Ellen lyfti 140 kg í bæði hnébeygju og deadlift, en fyrir var metið í hennar flokki 100 kg í hnébeygju og 120 kg í deadlift svo bætingin er mikil. Það merkilegasta við þessi met er eflaust sú staðreynd að Ellen byrjaði að æfa kraftlyftingar fyrir þremur mánuðum síðan, en hún hefur lítið sem ekkert verið íþróttum síðustu ár.

Ellen, sem vinnur hjá Ás Styrktarfélagi, er lærður naglafræðingur og IACP hundaþjálfari, ásamt því að vera að læra hundasnyrtinn. Hún æfir í Thor´s Power Gym og er búsett í Grafarvogi. „Ég byrjaði að æfa kraftlyftingar í byrjun janúar, ég var eiginlega plötuð í það af Önnu vinkonu minni. Ég var mikið í hestum þegar ég var yngri en hef annars bara svona hoppað í ræktina inn á milli án þess að vera að gera eitthvað af viti. Ég held að þessi árangur sé Tómasi, þjálfaranum mínum að þakka, fyrir að ýta á mig og fara vel yfir allar æfingar og tæknina. Svo hef ég alltaf verið hraust og þegar ég prófaði kraftlyftingar fann ég að þetta var eitthvað sem ég hafði áhuga á, ég elska að mæta á æfingar og það skilar árangri. Ég lít mikið upp til Lystus Ebosele og finnst hún sjúklega svöl! Anna Kristín æfingafélagi minn er mikil fyrirmynd hjá mér og stór ástæða fyrir því afhverju ég er í þessu sporti,“ segir Ellen í samtali við Dagskrána.

Ljósmynd: Úr einkasafni.

Aðspurð hvað sé skemmtilegast við kraftlyftingar segir Ellen: „Að sjá hvað plöturnar á stönginni eru orðnar margar, allt peppið á æfingum, árangur og bara geggjaður félagsskapur! Því þyngra – því skemmtilegra!“

En hvernig lítur dagurinn út hjá afrekskonu í kraftlyftingum? „Ég reyni að hafa eins mikla og jafna rútínu yfir daginn og ég get. Ég fer að vinna, á æfingu, út með hundinn minn og suma daga snyrti ég hunda eftir 8-4 vinnudaginn. Ég er í næringarþjálfun hjá Gunnari Stefáni (Fa Fitness) og fylgi mataræði sem er alveg stílað inn á það hvernig ég er að æfa, hvort það sé mót framundan og það er eiginlega hægt að segja að ég sé borðandi mest allan daginn,“ segir Ellen og hlær.

Næsta keppni Ellenar verður á páskamóti Thor´s Power Gym þann 15. apríl nk. og verður skemmtilegt að fylgjast með þessari flottu stelpu halda áfram í að bæta sig sportinu sem hún á greinilega vel heima í.

Fleiri myndbönd