5 C
Selfoss

Eitt af flottustu hönnunarhótelum í heimi fagnar tíu ára afmæli með stíl

Fyrr á árinu birti hönnunartímaritið Elle Decoration lista yfir 10 flottustu hönnunarhótel sem byggð hafa verið á síðustu tveimur áratugum. Á listanum er eitt íslenskt hótel, ION Adventure Hótel, sem staðsett er á Nesjavöllum. Í greininni kemur fram  að öll hótelin sem eigi sæti á listanum séu hönnuð með næmri tilfinningu fyrir stað og ásýnd sem aðgreini þau frá fjöldanum, og á það sannarlega við um þetta einstaka hótel.

ION Adventure Hótel, á sínum hnarreistu steypusúlum, stangast skemmtilega á við aldagamalt hraunið sem hótelið stendur á og birtist gestum eins og Bond fylgsni á hjara veraldar eftir ferðalagið að hótelinu um grófgert, mosavaxið umhverfi Þingvallavatns sem er engu lagi líkt og fegurðin stórbrotin. Hótelið stendur spölkorn frá Nesjavallavirkjun sem gefur því að auki óvenjulegt yfirbragð, en gufustrókarnir frá virkjuninni teygja sig til himins og sýna mátt jarðhitans sem kraumar undir yfirborðinu.

Hótelið, í núverandi mynd, var opnað árið 2013, en upphaflega var byggingin notuð sem starfsmannahús fyrir starfsfólk Nesjavallavirkjunar. Árið 2008 var húsinu breytt í hótel, sem starfrækt var undir nafni Hótel Hengils til ársins 2012, en þá var nýbyggingin tekin í notkun og Ion Adventure Hótelið leit dagsins ljós. Hótelið var stækkað og 24 herbergjum bætt við, Norðurljósabarinn og spa-ið opnaði og eldri bygging var endurnýjuð, en Minarc arkitektar sáu um hönnunina.

Nú, þegar hótelið fagnar 10 ára afmæli, eru miklar breytingar framundan, en stefnt er að stækkun á hótelinu. Jarðvinna er nú þegar hafin og markmiðið er að ljúka framkvæmdum sumarið 2024. Þorvarður Kristófersson er byggingarstjóri yfir verkinu og steyptu einingarnar koma frá BM Vallá en þær verða reistar í maí.

Svona kemur hótelið til með að líta út eftir að glerskálinn rís, en hann kemur til með að taka allt að 200 manns í sæti.

 „Til stendur að bæta við nýjum væng inn í hlíðina til norðurs, og fjölga herbergjum um 23. Þar af verða þrjár svítur með einka saunu og tvö fjölskylduherbergi, en í dag eru 43 herbergi á hótelinu svo þetta er töluverð stækkun. Síðan verður stór glerskáli byggður við veitingastaðinn sem kemur til með að taka 200 manns í sæti og þegar hann er tilbúinn förum við í stækkun á spa-inu,“ segir Andrea Skúladóttir, framkvæmdastjóri ION Adventure.

Andrea bætir við að í tilefni afmælisins verði frábær tilboð, tónleikar, pop-up, göngur og margt fleira á dagskrá hjá þeim. „Veitingastaðurinn Silfra er öllum opinn frá morgni til kvölds og stækkunin veldur ekki truflun á núverandi starfsemi. Okkur þykir líka gaman að segja frá því að Snædís, yfirkokkurinn á Silfru, veitingastað hótelsins, er að taka þátt í keppninni um kokk ársins núna um næstu helgi en 30. mars er undankeppnin og 1. apríl verða úrslitin. Við höfum tröllatrú á okkar konu og erum stolt af því að vera með þennan hæfileikaríka verðlaunakokk í okkar liði, en Snædís hefur, þrátt fyrir ungan aldur, verið fyrirliði kokkalandsliðsins og unnið til margra verðlauna fyrir snilli sína í eldhúsinu. Við erum gríðarlega spennt fyrir framtíðinni og ég mæli með því að fólk geri sér ferð á Nesjavelli og smakki matinn hennar Snædísar, því hann er dásamlegur,“ segir Andrea að lokum.

Fleiri myndbönd