-0.7 C
Selfoss

Valgerður átjánda á heimslista

Valgerður Einarsdóttir Hjaltested frá Hæli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi átti frábært innandyra tímabil í vetur og endaði í 18 sæti á World Series Open innandyra heimslista alþjóða bogfimisambandsins World Archery. „Eftir að öllum mótum í mótaröðinni var lokið og 635 keppendur um allan heim, sem tóku þátt í mótaröðinni í sveigboga kvenna, opnum flokki, höfðu lokið keppni er býsna gott að vera í 18 sæti á tengdum heimslista. Yfir 5000 keppendur tóku þátt í mótaröðinni í mismunandi keppnisgreinum,“ segir Gummi Guðjónsson, formaður Bogfimisambands Íslands í samtali við dfs.is.

World Series Open innandyra mótaröð alþjóða bogfimisambandsins World Archery samanstóð af 26 mótum um allan heim í vetur, frá byrjun nóvember og til lok febrúar. Valgerður vann einnig sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í mars á þessu ári og hefur unnið öll mót á Íslandi í sveigboga kvenna það sem af er árinu í fullorðins flokki. En síðasta árið sem Valgerður gat keppt í ungmenna flokkum var í fyrra, þar sem hún vann til bronsverðlauna á NM U21, var í 5 sæti á EM U21 innandyra og var í 9 sæti á EM U21 utandyra.

Þá bætir Gummi við að Valgerður sé á leið á Evrópubikarmótið í Bretlandi 1-9 apríl. Þar sem verður einnig keppt um síðustu þátttökurétti á Evrópuleikana 2023. „Hún var ekki langt frá því að tryggja sér sæti á leikana síðasta sumar á EM utnadyra. Valgerður hyggur á keppni á Veronicas Cup World Ranking Event í Slóveníu í maí, HM utandyra í Berlín í ágúst og Heimsbikarmótið í París í ágúst. Hún er svo áætluð til þátttöku sem þjálfari og starfsmaður Bogfimisambands Íslands á Evrópubikarmót ungmenna í Slóveníu í maí, Evrópubikarmót ungmenna í Sviss í júní og NM ungmenna í Noregi í júlí.“

Fleiri myndbönd