-0.7 C
Selfoss

Ómetanleg augnablik

Vinsælast

Listafólk í leikskóla og Barnamenning á bókasafninu

Við fullorðna fólkið erum stundum upptekin af hugtakinu Núvitund og leggjum mikið á okkur til að öðlast færni og meðvitund um hugtakið. Ferðumst jafnvel erlendis til að æfa okkur í að lifa í núinu. Engir eru þó betri í núvitund en ungir leikskólanemendur. Ungur listamaður málar af gleði og hikstar ekki þó fína sólin sem nýbúið var að mála hverfi undir brúna litinn sem málast framm og til baka. Brúmm brúmm bílinn keyrir fram og til baka….. og svo er pensli dýft í aðra málningu og bílförin hverfa og splunkunýtt augnablik hefst. 

Við skapandi starf af þessu tagi á sér stað mikið nám.

Að beita pensli krefst töluverðrar samhæfingar augna og handa, líkt og við skrift og aðra fínhreyfingu. Að dýfa pensli í málningardollu, lyfta honum svo að þeim stað á verkinu sem listamaðurinn vill vinna að og strjúka svo penslinum fram og til baka, upp og niður eða jafnvel í hring fyrir lengra komna. 

Leikskólakennari nýtir tækifærið til að valdefla nemandann, leyfa viðkomandi að finna að hann ræður ferðinni í sköpununni og að á viðkomandi sé hlustað, t. d. með spurningum á borð við Hvaða lit viltu fá núna? Viltu þennan hvíta eða þennan bláa? Hvaða pensil má bjóða þér? Hvað viltu gera núna? Er gaman að mála? Ertu ánægð með listaverkið þitt? Hvar viltu mála núna? Viltu sitja við borð eða viltu vera við trönur? 

Kennarinn sem er viðstaddur hefur orð á því sem er að gerast; s.s. Ég sé að þú beygir þig alveg að til að sjá betur. Leikskólakennarinn leggur inn orðaforða svo sem alla þá liti sem eru í boði eða birtast, heiti á t.d. fingrum, lófa, handlegg og handarbaki listamannsins eða þá hluta andlits sem gjarnan fá á sig svolitla málningu. Er viðkomandi að mála hratt, hægt, fast eða laust? Eða t.d. að strúka, klessa, nudda, dúbba eða sletta? Birtast form í verkinu eða nefnir listamaðurinn hvað verið er að mála? Kannski kanínu, mömmu sína, sól eða traktor? 

Og stundum þarf kennarinn auðvitað að vera þögull og leyfa nemandanum að njóta sín í Flæði!

Að fylgjast með sigrinum og gleðinni sem birtist í augum listafólks sem er ánægt með sköpun sína eru forréttindi sem fáum hlotnast. Heppinn leikskólakennari fær að njóta þessara forréttinda! 

Efling m.a. málþroska, hreyfiþroska, og vitsmunaþroska við vinnu að listaverki er þó ekki það sem stendur uppúr eftir allt saman. Gleðin, hlýjan og litlu fræin sem sáð hefur verið í vitund listamannsins, sú vissa sem litla manneskjan upplifir að hún sé flink og fær, geti notið sín við leik og störf, á hana sé hlustað og að hún megi og geti tjáð sig, að það sé í góðu lagi að mála svolítið útfyrir og að lífið sé skemmtilegt akkúrat núna… það er mikilvægt!

Nemendur á Lóudeild í leikskólanum Krakkaborg í Flóahreppi hafa undanfarið unnið að sameiginlegu listaverki. 

Sum hafa notað pensil, önnur notað fingur, neglur og lófa, og enn önnur allt af þessu. Listamennirnir hafa líka þurft tíma og næði til að virða fyrir sér afraksturinn, oft þurft að setjast á hækjur sér við trönurnar og mála alveg neðst á strigann en stundum þurft að koma alveg nálægt, tilla sér á tær og mála hátt hátt uppi, jafnvel lengst uppá trönurnar sjálfar. Allra yngstu nemendurnir hafa setið og málað við borð. Öll hafa fengið að mála sín eigin listaverk ásamt því að fá tækifæri til að mála á sameiginlega verkið oftar en einu sinni.

Umrætt listaverk verður til sýnis og sölu á Bókasafni Árborgar á Selfossi, Austurvegi 2 frá 27. mars og fram yfir bæjarhátíðina Vor í Árborg og til kl. 14:00 þann 29. apríl. Gestum og gangandi gefst kostur á að virða fyrir sér verkið og taka þátt í hljóðu uppboði. Skráningarblað er við verkið þar sem áhugasamir geta skráð netfang sitt og þá upphæð sem viðkomandi er tilbúinn að greiða fyrir verkið. Upphafsboð var kr. 2023 en sú upphæð sem fæst með uppboðinu verður nýtt til kaupa á nýjum striga og leikfangadýrum fyrir Krakkaborg. Starfsfólk bókasafnsins mun hafa samband við hæstbjóðanda, gefa upp reikningsnúmer í eigu Flóahrepps, rekstraraðila Leikskólans, og að greiðslu lokinni afhenda verkið þann 2. maí. 

Björg Kvaran
heppinn leikskólakennari í Krakkaborg

Nýjar fréttir