0.6 C
Selfoss

Lög sem voru samin með mjólkurskegg á Skeiðunum

Vinsælast

Laugardaginn 25. mars ætlar margrómaða íslenska sálarbandið, Moses Hightower, að stíga sín fyrstu skref á Sviðið á Selfossi. Blaðamaður Dagskrárinnar hafði samband við þetta skemmtilega band í tilefni af tónleikunum.

Stukku á nafnið í örvæntingu

 „Moses varð til rétt fyrir hrun þegar við vorum allir saman í tónlistarskóla, og að spila saman í hinum og þessum verkefnum öðrum. Við ákváðum að gera eitthvað með sameiginlegan áhuga okkar á bæði gamaldags og nýrri sálartónlist og fórum að hittast og semja saman. Fyrst ætluðum við hvorki að syngja né semja textana, en neyddumst á endanum til þess. Við vorum ógurlega lengi að finna nafn á bandið, og á endanum stukkum við bara í örvæntingu á nafn hægláts en ákveðins nemanda í afbragðskvikmyndinni um Lögregluskólann,“ segja strákarnir, aðspurðir um tilurð hljómsveitarinnar og hvaðan nafnið sé komið.

„Bróðir Bjarna í Stuðlabandinu“

En á bandið einhverjar rætur austur fyrir fjall? „Það væri ekki ofsagt, þar sem Andri sleit barnsskónum í Landeyjunum, gekk í grunnskóla á Hvolsvelli og bjó svo sumarið fyrir menntaskóla á Reykjum á Skeiðum þar sem móðir hans og stjúpi búa enn í dag. Þegar Moses ákvað að taka upp sína fyrstu plötu, þá var það Selfyssingurinn Magnús Øder sem trillaði öllum sínum hljóðupptökugræjum úr bænum, stillti upp í stofunni í gamla bænum á Reykjum og tók okkur upp af mikilli list, ásamt því að hljóðblanda plötuna og vinna mikið með okkur síðan. Annars kynnir Andri sig nú bara yfirleitt sem „bróður Bjarna í Stuðlabandinu“…“

Skemmtu sér frábærlega á Kótelettunni 

„Eitt af okkar fyrstu „giggum“ var nú bara nokkrum dögum eftir plötuupptökurnar á Skeiðunum – í brúðkaupsveislu í Brautarholti, og svo spiluðum við eftir útgáfu fyrstu plötunnar bæði Á Fjöruborðinu á Stokkseyri ásamt Jónasi Sig og í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Við spiluðum einu sinni í Gamla fjósinu á Steinum, en í seinni tíð er einn okkar uppáhaldstónleikastaður (óháð staðsetningu) Midgard Base Camp á Hvolsvelli, þar sem er alltaf gaman að spila, borða og gista. Í fyrra skemmtum við okkur svo frábærlega þegar við spiluðum á Kótelettunni, og það eru nú ekki síst hlýjar viðtökur áheyrenda þar sem vekja von um að það verði almennt stuð hjá okkur á Sviðinu,“ segja strákarnir kátir í bragði.

„Notum yfirleitt það sem fær okkur til að hlæja“

En hvaðan kemur innblásturinn í laga- og textasmíðum hjá Moses Hightower? „Hvað lagasmíðar varðar, þá er stutta svarið kannski „vestanhafs“, en við höfum mjög oft unnið lög einfaldlega útfrá því sem okkur sem hljóðfæraleikurum finnst skemmtilegt að spila það augnablikið. Djömmum saman um víðan völl og stöldrum við þar sem við förum að kinka kolli í takt. Okkur finnst líklega skemmtilegast þegar við náum í sameiningu að kokka upp eitthvað áhugavert „tvist“ á kunnugleg stef og þel – skekkja aðeins myndina á veggnum, ef svo má segja. Og það má kannski bara segja líka um textagerðina; við notum yfirleitt það sem fær okkur til að hlæja sjálfa, frekar en það sem rennur endilega ljúfast niður eða hljómar poppaðast,“ segja strákarnir og renna stoðum undir það hversu skemmtilegt er að hlýða á texta þeirra sem innihalda meðal annars setningarnar: „Ég er ekki bara að hugsa um yðar einlægan, það er ekki það sem vakir fyrir mér, búum til börn,“ úr laginu Búum til börn, „þarf ég þá að hugsa bara um þig í þátíð, eins og næturvaktin í Nóatúni“ úr laginu Háa c og „nýkeyptir íspinnar svitna og örvænta og etast af þybbnum börnum,“ úr laginu Sjáum hvað setur.

Alvöru tónlistarástríða sem ræður ríkjum

Strákarnir segjast vægast sagt spenntir fyrir tónleikum helgarinnar. „Það er ekki á hverjum degi sem opnaður er sérstaklega þar til gerður tónleikastaður þar sem allt er eins og best verður á kosið fyrir tónlist eins og okkar. Allt til alls, þ.m.t. frábær hljómburður og alvöru tónlistarástríða sem ræður ríkjum. Við ætlum að bjóða Sviðsgestum upp á eðalblöndu af gömlu og nýju efni: Allt frá lögum sem voru samin með mjólkurskegg á Skeiðunum fyrir fyrstu plötuna og yfir í okkar nýjustu númer af plötunni Lyftutónlist,“ segja þeir kumpánar að lokum.

Miðasala á tónleikana er hafin á tix.is.

Nýjar fréttir