-7.7 C
Selfoss

Íslenskunámskeið fyrir foreldra barna með fjölmenningarlegan bakgrunn á grunnskólaaldri

Vinsælast

Dagana 19. október 2022 til 22. febrúar 2023 var haldið hagnýtt íslenskunámskeið fyrir foreldra barna með fjölmenningarlegan bakgrunn á grunnskólaaldri. Um var að ræða þróunarverkefni hjá Fjölskyldusviði Árborgar styrkt af Sprotasjóði. Svipað námskeið var haldið árið 2021 og gekk mjög vel. Það var okkur hvatning til að þróa námskeiðið og halda það árlega.

Markmið verkefnisins var að bjóða foreldrum grunnskólanema með fjölmenningarlegan bakgrunn í Sveitarfélaginu Árborg á ókeypis íslenskunámskeið þar sem þeir myndu kynnast helstu hugtökum og efla orðaforða sem tengist skólastarfi, en rannsóknir sýna að tungumálaörðugleikar geta hindrað þátttöku foreldra í skólastarfi. Tilgangur verkefnisins var að efla vald og notkun á íslensku máli foreldra fjöltyngdra barna og styðja þannig við íslenskunám þeirra. Aðalnámskrá grunnskóla (2013) gerir ráð fyrir að foreldrar séu virkir þátttakendur í skólasamfélaginu í samvinnu við skólastjórnendur, kennara og aðra starfsmenn skóla.

Kennt var eitt kvöld í viku í fimmtán vikur, samtals 30 kennslustundir. Námskeiðið fór fram í Vallaskóla á Selfossi. Kennari námskeiðsins var Anna Linda Sigurðardóttir. Hún hefur margra ára reynslu af kennslu íslensku sem annars máls og starfar sem deildarstjóri fjölmenningardeildar í Vallaskóla. Að kennslunni komu einnig Aneta Figlarska, kennsluráðgjafi í fjölmenningu og Anna Katarzyna Wozniczka, verkefnastjóri í málefnum flóttamanna.

Boðið var upp á fjölþætta fræðslu, en notast var við Mentor kerfið, aðalvefsíðu Árborgar og Fjölmenningarsíðu Árborgar. Viðfangsefni námskeiðsins var m.a. skólakerfi á Íslandi, skráning nemenda í frístundir, virkt fjöltyngi, skólaorðaforði, Mentor kerfið, starfsemi Fjölskyldusviðs o.fl. Fulltrúi frá FSu stóð að kynningu á framhaldsskólanámi fyrir nemendur með fjölmenningarlegan bakgrunn.

Boðið var uppá málörvun fyrir börn þátttakenda á meðan á námskeiðinu stóð, í formi leikja og samræðna, í samstarfi við alla grunnskóla Árborgar. Kennarar úr öllum skólum í Árborg tóku þátt í námskeiðinu og skiptust á að koma að kennslu barnanna.

Safnað var upplýsingum um íslenskukunnáttu foreldra og viðhorf þeirra til námskeiðsins í upphafi og lok námskeiðsins, en stefnt er að kynna verkefnið á Menntakviku 2023 sem og á fræðslufundum víðar í skólasamfélaginu.

Reynslan sem við tökum með okkur eftir námskeiðið er að nemendahópurinn er fjölbreyttur hvað varðar bakgrunn og móðurmál. Þarfir nemenda eru ólíkar og margt í sambandi við t.d. skráningar í frístundir sem þeir þekktu ekki fyrir. Þá þurfa þeir aðstoð við ýmislegt fleira sem tengist ekki skólamálum beint. Nemendur fengu gott rými til tjáninga og spurninga og virtust öruggir. Þeir voru mjög áhugasamir um áframhaldandi nám.

Í lok námskeiðsins fundu kennarar mun á íslenskukunnáttu þeirra barna sem tóku þátt með foreldrum í námskeiðinu. Það gefur okkur vísbendingu um að námskeiðið hafi ekki aðeins gagnast foreldrum heldur einnig stuðlað að framförum hvað orðaforða barnanna varðar.

Nýjar fréttir