-1.1 C
Selfoss

Menntskælingar vikunnar: Kristín Heiða og Einar Örn

Í tilefni af 70 ára afmæli Menntaskólans að Laugarvatni, þann 12. apríl nk., ætlum við, í aðdraganda afmælisins, að birta vikuleg viðtöl við gamla nemendur Menntaskólans að Laugarvatni um þeirra upplifun af ML. Næstu tveir viðmælendurnir eru þau Kristín Heiða Kristinsdóttir blaðamaður og Einar Örn Sigurdórsson.

Hvaða ár varst þú í ML?
Kristín: 1980-1984
Einar: Ég er mjög gleyminn á ártöl, en ég þegar ég byrjaði þá var uppáhaldslagið mitt „Girls on Film“ með Duran Duran og þegar ég útskrifaðist þá var uppáhaldslagið „There must be an Angel“ með Eurythmics.

Hvað tók við eftir ML?
Kristín: Ég flutti strax eftir útskrift til Reykjavíkur og settist á skólabekk í Háskóla Íslands. Nam þar íslensku og bókmenntir og lauk þaðan BA gráðu. Kom víða við í störfum, en hef verið fastráðinn blaðamaður á Morgunblaðinu undanfarin 23 ár. Frá fyrstu árum í Sódómu Reykjavík er minnisstæðast sambýli okkar vinkvenna á Ránargötu, sem allar höfðum verið saman í ML, og meðal þeirra voru sveitungar mínir og æskuvinkonur Tungnastelpurnar Áslaug Dóra og Ingunn Sighvats. Hart var djammað, eins og tilheyrir strax eftir menntó, og ófáir trúi ég að eigi minningar frá samkvæmum á Ránargötunni, m.a. skólafélagar frá Laugarvatnsárum. Við Áslaug og Ingunn fórum saman í eftirminnilega heimsreisu á háskólaárunum, m.a. hristumst við með stórum trukki um eyðimerkur Egyptalands.
Ég eignaðist frumburðinn, Melkorku, skömmu fyrir 25 ára afmæli mitt og seinna barn mitt, Kristinn, níu árum síðar. Barnabörnin eru orðin tvö.
Einar: Eftir smá umhugsunartíma hóf ég í nám í stjórnmálafræði, bjó á Snorrabrautinni með vini og bekkjarfélaga úr ML. Eignaðist góða vini í stjórnmálafræðinni líka og kom að stofnun auglýsingastofu með þeim. Í dag heitir hún Ennemm. Ég komst hinsvegar fljótlega að því að að ég kynni ekki nóg og þyrfti að vita meira og að sú kunnátta væri ekki fyrir hendi á Íslandi. Þar eftir tóku við 14 ár á austurströnd Bandaríkjanna við frekara nám og störf.
Í dag starfa starfa ég sem skáld, ljósmyndari, fjárfestir, stjórnarformaður og viðskiptaráðgjafi á Íslandi, í Japan og á austurströnd Bandaríkjanna.

Einar Örn í mjög mikilvægu símtali. Mynd: Úr einkasafni

Hvaða sérstöðu telur þú að ML hafi samanborið við aðra menntaskóla á Íslandi?
Kristín: Í mínum huga fyrst og fremst að vera lítill menntaskóli í sveit með heimavist. Með öðrum orðum, nánd.
Einar: Hann er menntaskóli í sveitasælu, undir heiðum himni, umlukinn íslenskri náttúru, lykt af birki og heitu vatni. Ég hef reyndar áhyggjur af því að þriggja ára menntaskólanám nú til dags sé of stutt til að nemar fái að upplifa almennileg menntaskólaár í íslenskri náttúru.

Af hverju varð ML fyrir valinu?
Kristín: Af því skólinn er staðsettur nálægt æskuheimili mínu, Austurhlíð í Biskupstungum, en fyrst og fremst af því við fórum saman í skólann nokkrar Tungnastelpur og bekkjarsystur, í því var mikill stuðningur. Við vorum heill flokkur og fengum viðurnefnið Tungnafrekjurnar, sem segir allt um karlrembu-stemninguna, reynt var að halda okkur ungu ákveðnu konunum niðri með þessari nafngift, en það bar ekki árangur.
Einar: Held að mamma mín hafi talið það besta leikinn í stöðunni. Hún hefur venjulega rétt fyrir sér.

Áttu þér uppáhalds minningu úr skólanum?
Kristín: Drottinn minn dýri, þær eru svo margar! Söngur í stiganum við gítarspil, Vestmannaeyjaferð með leikfélaginu, ostaveislur, skólaböllinn, allskonar uppátæki og samvera á vistum, að stelast í gufubaðið að næturlagi, og jú tíminn um vorið sem við verðandi stúdentar vorum ein eftir á heimavistinni fram að útskrift, það var frábær tími og við fórum stundum á rúntinn, heimsóttum m.a. Grím á Ketilvöllum, keyptum af honum mjólk. Umhyggja Kristins skólameistara og Rannveigar konu hans fyrir okkur nemendum, er einkar minnisstæð.
Einar: Það er bara engin leið að niðursjóða skólaárin niður í eina uppáhalds minningu. Var það að vera alltíenu umkringdur og kitlaður af tuttugu stelpum og táskoðaður? Var það fyrsta ástin? Að spila á trommur í skólahljómsveit? Að panta Bubba, Egó og Baraflokkinn fyrir skólaböll? Að stofna ólöglega útvarpsstöð? Að steikja beikon á Kösinni eða brugga bjór undir dýnunni? Að taka trylltan dans og luftgítar með vini við AC/DC í botni inni á herbergi tíu mínútum eftir að fyrsti tími eftir hádegi byrjaði og taka alls ekki eftir því að skólameistari horfir grafkyrr á, stóreygður og opinmynntur? Ég læt það eftir blaðamanni að velja.

Busavígsla, en þá voru busar bornir út í Laugarvatn og ausnir vatni úr skólabjöllunni. Á myndinni er Kristín Heiða lengst til hægri í rauðum buxum, blárri peysu og með hvítan klút. Á myndinni er einnig Áslaug Dóra frá Syðri-Reykjum og þær Dagný Jóns, Magga Jóh og Dýrleif. Mynd: Úr einkasafni

Hvernig upplifun var að fara að heiman og flytja inn á heimavist?
Kristín: Fyrir mig var þetta ekki langur vegur að heiman í kílómetrum en stórt skref fyrir sveitastelpu. Ég hlakkaði rosalega til og varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta voru frábær fjögur ár. Ég fór oftast heim aðra hverja helgi, þegar ekki var ball.
Einar: Ég hafði ekkert sérstakar væntingar. Líklega kvíðinn. Á degi tvö týndi ég veskinu mínu nálægt kvöldi, einhversstaðar á milli skóla og bóksölu (sem var þá í húsi í Laugavatnsþorpinu). Á þessum tíma voru engin greiðslukort og veskið fullt af seðlum eftir vinnu sumarsins. Ég var ásamt nokkrum öðrum fyrstubekkingum á Skólavist; í sjálfu skólahúsinu. Vissi ekki hvað í ósköpunum ég ætti að gera. Leiður. Taldi víst að veskið væri týnt og ég fátækur til jóla. Ég áræddi að minnast á þetta við herbergisfélagann minn sem var reyndar gamall vinur síðan úr barnaskóla. Hann sagði öllum á Skólavistinni frá og allt í einu skipulögðu tíu eða fimmtán ókunnugir strákar leit að veskinu, þræddu þessa kílómeters leið frá skóla og að þorpi. Fundu veskið við körfuboltavöllinn. Óhreyft. Það var ekki fyrr en ég lagðist á koddann minn þetta kvöld að ég áttaði mig á því að þyrfti ekki að vera kvíðinn. Þetta yrði allt í lagi. Einhverjir ókunnugir strákar svona óvænt næs. Það lentu örugglega eitt eða tvö gleðitár á koddanum það kvöld. 

Ertu ennþá í sambandi við skólafélagana?
Kristín: Já, við erum ákveðinn hópur sem hittumst reglulega, vinir fyrir lífstíð.
Einar: Já, en ekki nærri alla. Næstum daglega við suma.

Hvers saknarðu mest við að vera í ML?
Kristín: Þetta var tímabil í lífinu, æskuárin frá 16 til 20 ára, og þau tilheyra ekki öðrum tímabilum í lífinu. Þess vegna sakna ég einskis, en vissulega hugsa ég ævinlega hlýtt til þessara ára frelsis, uppátækja og áhyggjuleysis.
Einar: Ég sakna reyndar einskis við ML. Tíminn þar er alltaf ljóslifandi í minningunni þegar ég þarf að fletta upp á hlýjum minningum. Fékk samt á tímabili ástæðulausar martraðir um að ég hefði verið sendur þangað aftur til að klára upptökupróf fyrir Stúdentspróf. 

Hvernig telur þú að menntaskólagangan hafi mótað þig sem einstakling?
Kristín: Á heimavistinni lærði ég að vera sjálfstæð, taka ábyrgð og taka tillit til annarra. Í ML fylltist ég metnaði fyrir því að standa mig vel í skólanum, því þar voru frábærir hvetjandi kennarar. Stemningin meðal nemenda var líka að standa sig vel í námi. Í ML stækkaði reynsluheimurinn og þar eignaðist ég vini fyrir lífstíð sem hafa haft áhrif á mig sem manneskju.
Einar: Ég öðlaðist sjálfstæði, vandist því að lifa í nánu sambýli við annað fólk af ýmsum gerðum. Öðlaðist hugrekki. Þroskaði skopskyn og listrænt innsæi. Lærði af mistökum. Lærði að elska, taka góðar ljósmyndir og að elska beikon.

Myndir þú mæla með því við sunnlensk ungmenni að fara í ML?
Kristín: Já, alveg hiklaust, allir hafa gott af því að læra að búa með öðrum áður en haldið er út í fullorðinslífið. Þar fyrir utan er rosalega gaman að búa á heimavist í sveit á þessum árum fram að tvítugu, ævintýri líkast. Námið er væntanlega enn jafn metnaðarfullt og það var þegar ég var í ML, og því góður grunnur fyrir áframhaldandi nám.
Einar: Nei. Ég get ekki mælt með nokkrum menntaskóla við eitt eða neitt ungmenni. Mæli hinsvegar með því við alla að heimsækja Laugarvatn og skoða ML, því að fyrir einhverja gæti staðurinn og skólinn verið það langbesta í stöðunni, eitthvað sem skilur eftir sig reynslu og minningar sem endast alla ævi.

Fleiri myndbönd