-12.6 C
Selfoss

Fjórða sorptunnan, miðbærinn og rekstur Árborgar

Vinsælast

Það er alltaf ánægjulegt þegar styttist í vorið og daginn tekur að lengja. Aukið líf og ákveðin bjartsýni færist yfir samfélagið. Hin daglega rútína heldur þó áfram og hjá Sveitarfélaginu Árborg er fjöldi verkefna í gangi sem vert er að segja frá.

Fjórða sorptunnan bætist við

Viðamiklar breytingar verða á sorphirðu allra sveitarfélaga á þessu ári eftir að ný lög tóku gildi um áramótin sem samræma betur flokkun og sorphirðu. Hér í Árborg hefjum við innleiðinguna þegar heimilin fá til sín fjórðu flokkunartunnuna og í grenndarstöðvum verður tekið á móti málmi, gleri og textíl. Líkt og íbúar hafa ugglaust tekið eftir er nú búið að dreifa nýju tunnunni og því hægt að byrja strax að flokka pappa og plast í sitt hvora tunnu. Þeir sem vilja skipta út gráu og brúnu tunnunni fyrir eina tvískipta geta sótt um slíkt á heimasíðu sveitarfélagsins www.arborg.is undir „Mín Árborg“.

Lagabreyting þessi kemur sér vel fyrir sveitarfélögin, íbúana og fyrirtæki þar sem við fáum aukin tækifæri til að skapa verðmæti úr sorpi sem til fellur.

Í grunninn eiga sveitarfélög að reka sorphirðuna á núlli þannig að sorphirðugjöldin standi undir öllum kostnaði en nú með aukinni flokkun fær sveitarfélagið einnig greitt úr Úrvinnslusjóði. Það er raunverulegur hvati fyrir okkur öll að flokka vel, jafnt frá umhverfislegu sjónarmiði sem fjárhagslegu og með betri flokkun höldum við sorphirðugjöldunum í lágmarki. 

Samstarf við Innviðaráðuneytið

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum þann 1.mars að hefja samstarf við Innviðaráðuneytið um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit í tengslum við endurskipulag á rekstri sveitarfélagsins. Sett verða fjárhagsleg markmið og aðgerðaáætlun í tengslum við fjárfestingar, fjármögnun og almennan rekstur sveitarfélagsins. Sú vinna er í höndum starfsmanna sveitarfélagsins og bæjarfulltrúa og gengur hún vel, margar aðgerðir eru nú þegar komnar til framkvæmda en gert er ráð fyrir að heildaráætlunin verði tilbúin í byrjun apríl og komi til framkvæmda strax í framhaldinu. Verkefnið er krefjandi og snertir okkur öll að einhverju leyti. Það er eðlilegt að ekki verði allir sáttir við einhverjar þeirra aðgerða sem grípa þarf til en um leið eru tækifæri til staðar. Þar má m.a. nefna nýtingu tæknilausna sem geta bætt þjónustu en um leið lækkað kostnað. Í samkomulaginu við ráðuneytið felst m.a. viðbótarframlag úr Jöfnunarsjóði vegna utanaðkomandi ráðgjafar við verkefnið.

Deiliskipulag miðbæjar Selfoss í auglýsingu

Nú er tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss í auglýsingu og geta áhugasamir kynnt sér efni breytinganna inn á heimasíðu sveitarfélagsins www.arborg.is. Helstu tillögur breytinganna ná til nýrrar göngugötu og byggingareita sem stækka skipulagssvæði miðbæjarins inn í Sigtúnsgarð og að götunni Sigtúni. Er öllum heimilt að senda inn athugasemdir eða ábendingar við tillöguna og er frestur til 5.apríl 2023. Ætlun okkar bæjarfulltrúanna er svo að fá álit íbúanna á endanlegri tillögu með rafrænni íbúakönnun áður en hún fer til afgreiðslu bæjarstjórnar. Verða upplýsingar um hana kynntar betur síðar.

Ekki má gleyma þeim fjölmörgu viðburðum, stórum sem smáum sem eru í gangi um þessar mundir. Fjölskyldustundin kl. 11 á laugardögum í bókasafninu á Selfossi hefur vakið athygli ásamt fjölbreyttum námskeiðum sem haldin hafa verið í Skrúfunni í vetur. Nýlokið er árlegri byssusýningu í Veiðisafninu á Stokkseyri þar sem margir komu og Konubókastofan á Eyrarbakka er með fyrirhugaða mjög svo áhugaverða viðburðadagskrá í apríl. Íþróttastarfið á svæðinu er í fullum gangi þar sem yngri og eldri iðkendur hafa náð góðum árangri á sínum vettvangi sem gaman er að fylgjast með. Það má því með sanni segja að Sveitarfélagið Árborg sé lifandi samfélag sem við getum verið stolt af.

Bragi Bjarnason,
formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg  

Nýjar fréttir