-12.6 C
Selfoss

Anný og Gunnlaug stýra nýrri Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings

Vinsælast

Í vetur hefur staðið yfir undirbúningur að breytingum á Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs. Frá 1. mars síðastliðnum eru það sveitarfélögin Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur sem standa að þjónustunni. Íbúum í þessum fimm sveitarfélögum hefur fjölgað um 13% frá árinu 2013 þegar fyrri skóla- og velferðarþjónusta tók til starfa og er mikil uppbygging fyrirséð næstu árin með enn frekari fjölgun íbúa. Aðalstarfsstöð þjónustunnar er í Laugarási og þar munu starfa um 10-12 starfsmenn en einnig stendur starfsmönnum til boða að sinna starfi sínu að hluta í fjarvinnu eins og hentar hverju sinni. 

Markmið byggðasamlagsins er að efla samstarf á milli sveitarfélaganna á svæðinu á sviði skóla- og velferðarþjónustu, nýta tækifæri til að samþætta sérfræðiþjónustu fyrir skóla- og velferðarþjónustuna með það að markmiði að minnka faglega einangrun starfsmanna. Með þessu verði skapað teymi starfsfólks sem samstíga vinnur að því að efla og bæta þjónustu við íbúa, nemendur og starfsfólk skóla- og velferðarþjónustu í anda laga um samþættingu í þágu farsældar barna. 

Þeir málaflokkar sem falla undir þjónustuna eru skipulag og framkvæmd sérfræðiþjónustu fyrir leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu sveitarfélaganna skv. gildandi lögum og reglugerðum um leik- og grunnskóla og um félagsþjónustu sveitarfélaga og vegna þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna. 

Í upphafi ársins tók Anný Ingimarsdóttir við stöðu deildarstjóra velferðarþjónustu og hefur hún unnið þétt með verkefnastjórn að undirbúningi nýrrar þjónustu. Anný hefur mikla þekkingu og reynslu á sviði félagsþjónustu- og velferðarmála og býr yfir menntun á sviði uppeldis- og menntunarfræða, félagsráðgjafar og barnaverndar. Það er því mikill fengur fyrir svæðið að fá að njóta starfskrafta hennar í þágu íbúa svæðisins. Nú í mars var svo gengið frá ráðningu Gunnlaugar Hartmannsdóttur sem deildarstjóra skólaþjónustu. Gunnlaug hefur víðtæka þekkingu á fræðslu- og skólamálum og hefur komið að stjórnun, kennslu og ráðgjöf. Hún er með uppeldis- og kennslufræðimenntun ásamt menntun í náms- og starfsráðgjöf. Gunnlaug hefur starfað síðustu ár sem skólastjóri Flóaskóla. Saman mynda þær stjórnunarteymi Skóla- og velferðarþjónustunnar og munu koma að mótun starfseminnar ásamt starfsmönnum. 

Það er von sveitarfélaganna sem standa að nýrri Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings að með þessum breytingum sé stuðlað að góðri og skilvirkri þjónustu í þágu íbúa svæðisins.

Fyrir hönd stjórnar
Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs.
Hulda Kristjánsdóttir, formaður

Nýjar fréttir