-6.1 C
Selfoss

Saman mótum við skýra framtíðarsýn

Undanfarnar vikur og mánuði hefur KPMG unnið í samstarfi við bæjarstjórn og stjórnendur stofnana í Hveragerði að úttekt á stjórnsýslu og stefnumótun sveitarfélagsins. Álíka úttekt á rekstri bæjarins fór fram fyrir um 10 árum.

Róum í sömu átt

Framsókn í Hveragerði hefur lagt mikla áherslu á skýra framtíðarsýn og mikilvægi þess að horfa til lengri tíma þegar kemur að rekstri sveitarfélagsins og stefnumörkun. Að setja sér sameiginleg markmið og móta leiðir að þeim hefur reynst farsæl leið til að ná árangri. Við stefnumótun er staðan greind eftir styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum. Mikill samhljómur var á meðal þeirra sem unnið hafa að drögunum enda margt jákvætt unnist á undanförnum árum.

Höldum áfram

Fyrstu drög að stefnumótun hafa verið kynnt stjórnendum og nú gefst bæjarbúum tækifæri til að leggja sitt á vogarskálarnar með því að taka þátt í íbúakönnun og hafa þannig áhrif á hvert stefnan verður tekin.

Höfum áhrif

Íbúakönnunin fer fram í gegnum heimasíðu Hveragerðisbæjar hveragerdi.is og stendur til 26. mars næstkomandi. Bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt, forgangsraða verkefnum eftir mikilvægi og setja þannig fram sínar áherslur. Að íbúakönnun lokinni verða niðurstöður tengdar við stefnumótunina. Því næst lögð fram aðgerðaráætlun að innleiðingu stefnunnar fyrir samfélagið í Hveragerði. Vinnum saman að betri bæ.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknar í Hveragerði

Nýjar fréttir