Gunnar Borgþórsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.
Það er mikill heiður að vera tilnefndur og þakka ég vini mínum Inga Rafni fyrir tilnefninguna. Ég verð þó að viðurkenna að eldamennska er ekki mín sterkasta hlið.
Ég elska að búa til og borða góða pizzu með dreitil af rauðvíni í góðra vina hópi og er það hápunktur vikunnar. Til þess að geta gert fullkomna pizzu er gott að vera með pizzaofn en hún virkar líka vel í venjulegum heimilisofni.
Mjög mikilvægt er að deigið sé meðhöndlað varlega og hnoðað eingöngu með handafli bæði í undirbúningi og þegar verið er að fletja út. Þegar verið er að hnoða deigið er gott að spjalla við það, hvetja það áfram og hrósa því, það verður mun bragðbetra fyrir vikið.
Pizza Egilsstaðir með Sýr-sósu og hvítlauksolíu
Deigið
500 gr hveiti (00 hvítt hveiti)
250-300 ml volgt vatn (hitað í potti)
1/15 matskeið ólífuolía
2 teskeiðar salt
10 gr þurrger
1- Sigtið saman hveiti og salt í sér skál.
2- Hitið kalt vatn í potti upp í ca 38 gráður.
3- Hellið vatninu í aðra skál og bætið öllu gerinu við. Blandið saman rólega með fingrum þar til allt gerið hefur leyssts upp.
4- Bætið olíu við vatnið.
5- Hellið vatninu ofan í hveitið og hrærið rólega með handafli þar til deigið hefur blandast vel saman.
6- Hnoðið deigið með hveiti á hreinu borði í ca 10 mínútur.
7- Setjið deigið í hreina skál og leggið rakt og volgt viskastykki yfir eða plastfilmu.
Til þess að fá fullkomið deig er plastfilma sett yfir deigið og það sett í kæli í 18-30 tíma. Þá verður það extra teygjanlegt og bragðið meira. Þegar deigið er tekið út verður það að ná stofuhita áður en það er flatt út.
Einnig er hægt að setja rakan klút yfir og láta það lyfta sér á borði í 1-2 tíma og fletja strax út.
Sýr-Sósan
170 gr Hunts tómatpaste með basil, hvítlauk og oregano
170 gr Hunts tómatsósa
2 marin hvítlauksrif
Matskeið af þurru oregano
1- Blandið tómatpaste og tómatsósu saman
2- Merjið hvítlauksrifin og hrærið í sósuna
3- Bætið salti og oregano við og smakkið til
Hvílauksolían
4 fersk, marin hvítlauksrif
2 dl Ólífuolía
Klípa af salti
Álegg
Rauðvínssalami frá SS
Fersk mossarella-kúla
Dass af rauðlauk
Dass af rjómaosti
Svartur pipar
Klettasalat
Pizzan sett saman
Deigið er flatt út með handafli og teygt til.
Sósunni er dreift á með skeið.
1- Stráið mozzarella osti á pizzuna
2- Skerið rauðvínssalami í þunnar sneiðar og raðið á pizzuna
3- Skerið rauðlauk gróft og stráið yfir
4- Skvettið rjómaosti yfir pizzuna
5- dass af svörtum pipar
Hitið ofninn í 220 gráður á blæstri eða kveikið á pizzaofni og látið hann hitna í 20 mínútur.
Þegar pizzaendarnir eru dökkbrúnir er pizzan klár. Takið hana út, hellið hvítlauksolíu rólega yfir og dreifið úr klettasalati ofan á pizzuna. Skerið og njótið.
Ég skora á fagurkerann og lífskúnstnerinn Einar Örn Einarsson, umsjónarmann fasteigna, að kasta í einn af sínum dýrindis réttum fyrir næstu viku.