-3.4 C
Selfoss

Ánægðust þegar bókastaflinn er stór og spennandi

…segir lestrarhesturinn Móeiður Ágústsdóttir

Móeiður Ágústsdóttir er fædd á Löngumýri á Skeiðum. Hún flutti á Stokkseyri árið 1970 og hefur búið þar síðan. Hún hefur unnið ýmis störf, við fiskvinnslu, þjónustu við aldraða og síðast á leikskóla. Nú er hún sest í helgan stein með bækur og prjóna. Móeiður er gift Eggert S. Guðlaugssyni og eiga þau fjögur börn, þar af þrjú á lífi og helling af barnabörnum og barnabarnabörnum.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er oftast með eina eða tvær í takinu. Núna er ég að lesa bókina Kaffi og rán eftir Chatarina Ingelman-Sundberg sem er svona léttmeti um gamalt fólk sem beitir öllum brögðum til að komast í fangelsi af því það heldur að það hefði það betra þar en á elliheimilinu. Tók hana á bókasafninu til að rifja upp gömul kynni, geri það gjarnan. Ég er líka að lesa bækur eftir Elínborgu Lárusdóttur en þær eru vinir mínir og eru lesnar reglulega. Núna þessa dagana hlusta ég líka á passíusálmana bæði í útvarpinu og á Storytel.

Hverskonar bækur höfða helst til þín?

Allskonar bækur höfða til mín. Ég les að vísu lítið af glæpasögum og alls ekki bækur þar sem farið er illa með börn.  Viðurkenni veikleika fyrir ástarsögum. Sögulegar skáldsögur eru líka eitthvað sem ég nýt þess að lesa. Þar má nefna Reisubók Guðríðar Símonardóttur og fleiri.  Við hjónin eigum dágott bókasafn þar sem kennir ýmissa grasa allt frá Ísfólkinu og að Stokkseyringasögu.

Varstu alin upp við lestur?

Já og var snemma læs og las allt sem ég komst yfir. Foreldrar mínir og systkin áttu bækur og ég las og las. Man svo sem ekki eftir einni uppáhaldsbók fremur en annarri. Reyndar eignaðist ég óvænt bók eftir Enid Blyton Dularfulla hálsmenið sem hvarf. Hún varð uppáhalds aðallega vegna gefandans. Kær minning úr æsku er að koma inn til afa og ömmu og heyra afa lesa fyrir ömmu framhaldssögu í Tímanum.

Segðu frá lestrarvenjum þínum.

Ég les mikið. Les þó helst á kvöldin núna seinni árin. Áður las ég hvenær sem færi gafst en prjónarnir hafa aðeins tekið yfir tímann og þá hlusta ég gjarnan á Storytel. En mér finnst betra að lesa bækurnar því það er eitthvað við það að hafa bók í hönd.  Talsvert löngu fyrir jól er ég búin að ákveða hvað ég ætla til jólalesturs og viða að mér lesefni úr ýmsum áttum, jafnvel marglesnar bækur og kunnnugar. Ég sækist ekkert endilega eftir nýjustu bókunum.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Hef frá blautu barnsbeini haldið upp á Guðrúnu frá Lundi og sögur hennar, sennilega vegna þess að ég ólst upp við þær bækur. Einnig hefur Jón Trausti komið sterkur inn og er Halla og heiðarbýlið uppáhalds saga mín eftir hann. Það verk er hollt að lesa öðru hverju svo og skáldverk Elínborgar Lárusdóttur. Ég er frekar gömul sál. Erlendir höfundar eru líka margir góðir og finnst mér stundum þýðendur fara sér aðeins of hægt. Það er reyndar kostur við það að eldast að minnið verður gloppóttara og þá er hægt að lesa sömu bækurnar með styttra millibili.

Hefur bók einhvern tíma rænt þig svefni?

Ó já margar. Oft las ég yfirleitt eins lengi og ég mögulega gat. Stundum langt fram á nótt. En það hefur aðeins breyst með árunum. Ég er mjög hraðlæs og hefur stundum verið dregið í efa að ég lesi hverja blaðsíðu. Ánægðust er ég þegar bókastaflinn á náttborðinu er stór og spennandi.

 En að lokum Móeiður, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Klárlega ljóða- og barnabækur. Hef ort talsvert af ljóðum sem gaman væri að gefa út einn góðan veðurdag. Reyndar komu nokkur ljóð eftir mig út í ljóðabók sem heitir Vængjatök – ljóð sunnlenskra kvenna. Skrifaði líka nokkrar barnasögur á árum áður. Mér finnst mjög mikilvægt að lesið sé fyrir og með börnum og gefum við afkomendum okkar gjarnan bækur við tækifæri.

_______________________________________________________

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason – jonozur@gmail.com

Fleiri myndbönd