Ingi Rafn Ingibergsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar
Vill byrja á að koma fram þökkum á fagurkerann Björn Sigurbjörnsson fyrir þessa frábæra tilnefningu. Ég hef verið meira í því að mæta heim þegar maturinn er tilbúinn síðustu árin, en nú þegar ég hef lagt tuðrusparkið mestmegnis á hilluna hefur gefist meiri tími í eldamennskuna. Ég er ekki með marga rétti í bókinni en eftirfarandi kjúklingaréttur er í miklu uppáhaldi
Grískur kjúklingur með Tzatziki sósu og fersku salati
1 kg | úrbeinuð kjúklingalæri |
1 msk. | hvítvínsedik |
3 stk. | hvítlauksrif |
1⁄2 stk. | safi úr hálfri sítrónu |
1 msk. | ólífuolía |
4 msk. | grísk jógúrt frá Gott í matinn |
1 1⁄2 msk. | óreganó |
1 tsk. | paprikukrydd |
1 tsk. | kóríanderkrydd |
1 tsk. | salt |
1 tsk. | pipar |
Tzatziki sósa
350 g | grísk jógúrt frá Gott í matinn |
2 msk. | sítrónusafi |
1 msk. | ólífuolía |
2 stk. | hvítlauksrif |
1⁄2 stk. | gúrka, rifin |
salt og pipar eftir smekk |
Salat
3 stk. | tómatar |
1⁄2 stk. | gúrka |
1 stk. | avocado |
1⁄2 stk. | rauðlaukur |
steinselja eftir smekk | |
salt og pipar eftir smekk |
Kjúklingur
Setjið gríska jógúrt í skál ásamt hvítlauk, hvítvínsediki, sítrónusafa, ólífuolíu og kryddi.Blandið öllu vel saman og hellið yfir kjúklinginn.
Hrærið marineringunni vel saman við kjúklinginn og geymið í kæli.
Gott er að leyfa kjúklingnum að marinerast í nokkrar klukkustundir og jafnvel yfir nótt.
Steikið kjúklinginn á pönnu eða grillið.
Raðið kjúkling, sósu og salati á tortillakökurnar en gott er að steikja tortillurnar upp úr smá smjöri eða olíu á pönnu og bera þær fram heitar.
Tzatziki sósa
Blandið grískri jógúrt, sítrónusafa, ólífuolíu, hvítlauk, salti og pipar og hrærið vel saman. Rífið niður gúrku í aðra skál með rifjárni, setjið í eldhúsrúllubréf, helst þrefalt og vindið safann úr. Blandið rifinni gúrku saman við jógúrtblönduna og hrærið vel saman.
Salat
Skerið salatið smátt niður og blandið saman í skál og berið fram með kjúklingnum.
Mig langar að skora á pizzaprinsinn og áhugamannakokkinn Gunnar Borgþórsson til að draga fram uppskriftabókina og sýna sitt rétta andlit