-4.9 C
Selfoss

Sigurhæðir eru eign okkar allra

Allan febrúarmánuð var uppi svokallaður góðgerðarbás í Krílafló á Selfossi. Í góðgerðarbásnum voru seld barna- og fullorðinsföt, útidót og fleira gegn vægu verði og öll innkoman rann óskipt til Sigurhæða. Dagskráin leit við sl. mánudag þegar Jóhanna Þorvaldsdóttir, eigandi Krílafló, afhenti Sigurhæðum ágóðann.

Við erum alsælar

“Mér finnst þetta hafa gengið alveg stórkostlega og við erum óskaplega þakklátar fyrir að hafa fengið þetta tækifæri, að vera með bás hér í Krílafló, það er bara algjörlega henni Jóhönnu að þakka. Við erum alsælar, þetta er eitthvað sem við þurftum á að halda. Þetta er bæði góð auglýsing og virkilega flott framtak hjá Jóhönnu og öllum sem hingað komu til að versla og sýna stuðning í verki,“ segir Jóna Ingvarsdóttir formaður Soroptimistaklúbbs Suðurlands

Engin spurning um að þetta verði endurtekið

„Þetta gekk vel, við söfnuðum 141.497 krónum og Krílafló ætlar að rúna upphæðina upp í 150.000. Við erum rosalega glöð að fá stuðninginn og tækifæri til að vekja athygli á svona frábæru starfi eins og Sigurhæðir eru að vinna sem er algjörlega nauðsynlegt í okkar samfélagi. Í góðgerðarbásinn fóru óskilamunir héðan frá okkur og þær úr Soroptimistaklúbbnum voru duglegar að koma með föt til að fylla á básinn. Við seldum allt á klink og fólk var rosalega glatt að fá kannski ónotaðan kjól á 500 eða 1000kr. Margir viðskiptavinir komu hingað í þeim erindagjörðum einum að kíkja á góðgerðarbásinn því þeir vildu leggja góðu málefni lið. Þetta er verkefni sem er engin spurning um að við munum endurtaka,“ segir Jóhanna.

Skapar samtal um Sigurhæðir

„Svona framtak eins og hjá henni Jóhönnu í Krílafló er alveg einstaklega skemmtilegt, bæði tryggir hún það að það skapast samtal um hvað Sigurhæðir eru við kúnnann og hér yfir afgreiðsluborðið af því að konur sem koma og sjá þessi flottu föt á lágu verði þær náttúrulega spyrja, sjá merki Sigurhæða og spyrja hvað Sigurhæðir séu. Þetta framtak sýnir okkur svo vel það sem er svolítil mantra hjá okkur, það er að Sigurhæðir eru ekki bara eitthvert verkefni Soroptimistaklúbbsins, Sigurhæðir eru eign okkar sunnlendinga, eign okkar allra, er samfélagsverkefni sem við eigum öll hlutdeild í og aðgang að,“ segir Hildur Jónsdóttir, verkefnastjóri Sigurhæða að lokum.

Fleiri myndbönd