-4.4 C
Selfoss

Þetta er mér ennþá hulin ráðgáta

…segir lestrarhesturinn Svanur Jóhannesson

Svanur Jóhannesson býr í Hveragerði og er bókbindari að mennt. Hann hóf snemma að vinna að félags- og hagsmunamálum bókagerðarmanna og sat í stjórn Bókbindarafélags Íslands í 16 ár, þar af í 7 ár sem formaður. Hann sat síðan í stjórn Félags bókagerðarmanna í nær tvo áratugi eftir að félög í prentiðnaði sameinuðust 1980. Svanur sat í ritnefnd bókarinnar Prent eflir mennt eftir Inga Rúnar Eðvarðsson, sögu bókagerðar frá upphafi til síðari hluta 20. aldar og í ritnefndum stéttartals og sögu bókagerðarfélaganna frá 1994. Hann hefur auk þess ritað fjölda greina í tímaritið Prentarann frá árinu 1981.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Ég er að lesa bókina Örlagaskipið Arctic – Íslenskir sjómenn í ólgusjó seinni heimsstyrjaldarinnar. Ég var búinn að heyra eitthvað um þetta skip eða lesa og það heillaði mig, líklega af því að þetta var skúta. Það er ekki svo mikið um skútur á Íslandi en ég hafði séð þær á síldveiðum fyrir norðan þegar ég var þar á síld fyrir mörgum árum.

Og hvernig var sú sýn?

Þá var maður með mér um borð sem sagðist hafa verið á Arctic. Hann var kallaður Hari eða Harrý, var frá Siglufirði og kattliðugur í öllum athöfnum um borð. Við tengdumst þannig að hann bjargaði mér um borð þegar ég féll útbyrðis þegar annar nótabáturinn datt úr fremri davíðinum. Ég var frammímaður á bakborðsbátnum og átti að sjá um að krækja blökkinni í bátinn þegar hann var hífður upp eða látinn síga niður.

Þarna ertu komin með atburðarás eins og í sögu?

Já heldur betur því maðurinn á spilinu taldi sig heyra skipstjórinn segja að það ætti að fíra bátnum niður og hann gaf skyndilega allt laust að framan og framendinn stakkst beint niður í sjóinn og ég með. Ég reyndi að koma mér frá skipinu sem fyrst því nótin var að hrapa niður á eftir mér. Mér tókst það, en þá barst ég frá skipinu því það var mikill straumur í sjónum. Ég náði í ár sem flaut hjá og síðan í bjögunarhring sem var laus á floti en enginn taug í honum.

Og kemur Hari þá til sögunnar?

Já þá kom Hari til sögunnar. Hann var að gera upp langa línu sem hann fleygði til mín, en hún kom í sjóinn dáldið frá mér svo ég náði henni ekki. Þá sá ég að hann gerði hana upp aftur og henti henni örugglega yfir öxlina á mér og þá var eftirleikurinn auðveldur. Ég var hífður um borð og fór undireins niður í lúkar og hafði fataskipti. Var kominn á minn stað í nótabátinn seinna um daginn. Þetta var mjög eftirminnilegt en við Hari ræddum þetta aldrei og ég hitti hann ekki eftir þetta. Það hefði samt verið gaman að ræða frekar við hann og vita meira um lífshlaup hans.

Varð einhver eftirmáli að þessari björgun?

Ég veit ekkert hvað varð um Hara. En ég hef oft sett hann í samband við Arctic. Þetta varð til þess að ég varð að lesa þessa bók um þetta fræga skip og vita hvort ég rækist eitthvað á HARA í bókinni, en það var ekkert þar um hann. Þetta er mér því ennþá hulin ráðgáta.

En Svanur, hvers konar aðrar frásagnir höfða helst til þín?

Það eru helst einhverjar ævintýrabækur eins og Kóngurinn á Kilba. Mér fannst hún afskaplega  skemmtileg þegar ég var barn. Líka Hrói höttur og Ívar hlújárn. Ég gat lesið þær aftur og aftur. Eftir að ég komst á fullorðinsár þá fannst mér gaman að lesa Kiljan og Þórberg. Vefarinn mikli var obinberun, Íslandsklukkan og Atómstöðin. Sherloch Holmes bækurnar voru líka í uppáhaldi á tímabili. Ljóðabækur las ég alltaf inn á milli. Svo seinna las ég smásögurnar hans Gyrðis Elíassonar. Mér fannst margar af þeim skemmtilegar og stundum dularfullar.

Ertu alinn upp við lestur?

Ég man ekki eftir að það væri lesið fyrir mig og ég var ekki alinn upp við lestur. Ég var svo fljótt læs að ég sá um þetta sjálfur. Um sumarkvöld eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, bækur Sigurðar Thorlaciusar: Um loftin blá og Sumardagar. Þetta voru uppáhaldsbækurnar mínar. Þá komu sögurnar Þegar drengur vill og Útlagar sem Aðalsteinn Sigmundsson þýddi. Þetta voru draumabækur og hafa ekki farið úr huga mér síðan. Mér fannst allir þessir höfundar úr Austurbæjarskólanum í Reykjavík höfða til mín. Þeir skrifuðu um sveitina, ungt fólk, dýrin og náttúruna. Það fannst mér skemmtilegt. Ég held að Ólafur Jóhann Sigurðsson hafi verið bestur og höfðaði mest til mín. Svo las ég seinna fullorðinsbók eftir hann sem heitir Vorköld jörð. Hún var líka frábær.

Hefur bóklestur einhvern tímann rænt þig svefni?

Já, oft og mér finnst gaman að lesa bækur á nóttunni. Það er einhvern veginn betra að einbeita sér að því að lesa á nóttunni. Það er gott. Pabbi átti tíu fyrstu heftin af Grímu og ég las þau öll spjaldanna á milli.

Að lokum Svanur, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég hef aldrei hugsað út í það.

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason – jonozur@gmail.com

Fleiri myndbönd