-0.7 C
Selfoss

Loka Pósthúsinu í Hveragerði

Þann 27. febrúar sl. gaf Pósturinn út tilkynningu þess efnis að til stæði að gera breytingar á þjónustu Póstsins en á næstu misserum koma 8 þjónustustöðvar Póstsins víðsvegar um landið til með að loka.  Verður meiri áhersla lögð á samspil póstboxa-, póstbíla-, bréfbera- og landpóstaþjónustu sem mun sinna þjónustuhlutverki Póstsins á þessum svæðum. Meðal pósthúsanna sem stendur til að loka er pósthúsið í Hveragerði og heyrðum við í Geir Sveinssyni, bæjarstjóra í Hveragerðisbæ varðandi yfirvofandi breytingar á póstþjónustu bæjarbúa.

Fullvissa um að þjónustan muni ekki verða síðri

„Ég held að almennt hafi verið ánægja með póstþjónustuna í Hveragerði, að vera með aðgang að póstþjónustu úti í upplýsingamiðstöð sem Hvergerðingar hafa nýtt sér. Þróunin hefur hinsvegar verið sú að þetta er stöðugt að breytast og það er orðinn meirihluti sem er sendur með öðrum hætti heldur en áður var en það er auðvitað slæmt að missa þessa póstþjónustu úr bænum. Ég átti samtal við þau hjá póstinum í síðustu viku þar sem þau tilkynntu mér að það stæði til að segja upp húsnæðinu og þar af leiðanndi breytingu á póstþjónustunni í Hveragerðisbæ og þau fullvissa mig um að þjónustan muni ekki verða síðri. Það er þó alveg ljóst að breytingar muni eiga sér stað þar sem þú getur ekki fengið þessa afgreiðslu sem hingað til hefur staðið til boða. Þetta er kannski eitthvað sem við í sjálfu sér getum ósköp lítið gert í, þetta er stefna Póstsins og þau hafa sínar ástæður fyrir því,“ segir Geir Sveinsson í samtali við Dagskrána.

„Eins og eins og við sáum í fréttum í morgun þá er ekki bara verið að segja upp húsnæðinu hjá okkur heldur víða um allt land og þegar í nágrannasveitarfélögunum í kringum okkur hefur þetta verið gert þannig það er að eiga sér stað gríðarleg breyting á póstþjónustu þar sem allt er að færast meira í stafrænu áttina. Við höfum 6 mánuði til þess að aðlaga að okkur að þessu og gera þetta með sem bestum hætti. Nú fer sú vinna í gang, að sjá hvaða áhrif við getum haft á þær breytingar sem standa til og hvernig fólk kemur til með að sinna þessari þjónustu hjá okkur,“ segir Geir Sveinsson.

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins, segir að lögð sé áhersla á að þróa þjónustuna í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda. „Dregið hefur úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa. Þar af leiðandi er lagt upp úr að þróa annars konar lausnir. Okkar ánægðustu viðskiptavinir eru þeir sem nota póstbox auk þess sem í dag er hægt að póstleggja pakka í póstbox. Flest póstboxin eru aðgengileg allan sólarhringinn og eru einföld í notkun“ segir Þórhildur.

Stafræn umbreyting kallar á nýjar nálganir í þjónustu og við verðum að bregðast við því. Um leið ber okkur beinlínis skylda til að leita hagkvæmra leiða í rekstrinum og því eru breytingar sem þessar óhjákvæmilegar. Pósturinn hefur lagt höfuðáherslu á að endurskipuleggja þjónustu fyrirtækisins með viðskiptavini í forgrunni. Hluti af þeirri vegferð eru fleiri sjálfvirkar afhendingarleiðir í aukinni nálægð við viðskiptavini. „Markmið okkar er ávallt að fjölga afhendingarstöðum en það er okkur mikið kappsmál að bæta við póstboxum í helstu þéttbýliskjarna á landsbyggðinni. Það skiptir máli að bjóða upp á þétt dreifinet móttöku og afhendingastaða til að vera sem næst viðskiptavinum okkar, segir Þórhildur.

Fleiri myndbönd