Bergrós Björnsdóttir er 16 ára afrekskona í CrossFit og keppti nú í janúar, ásamt Annie Mist, í parakeppni Reykjavíkurleikanna, þar sem þær stöllur fóru létt með að landa fyrsta sætinu. Í miðjum undirbúningi fyrir heimsleikana í Crossfit síðasta sumar ákvað Bergrós með mjög stuttum fyrirvara að keppa á heimsmeistaramótinu í Ólympískum lyftingum sem fram fór í León í Mexíkó þann 15. júní 2022. Þarna var hún yngsti keppandinn og endaði í 8. sæti í sínum flokki. Á mótinu hreppti Bergrós titilinn yfir yngstu konu til að lyfta 100kg yfir höfuð í sögu Íslands. Tæpum mánuði eftir heimkomu frá Mexíkó lagði Bergrós af stað til Bandaríkjanna í lokaundirbúning fyrir heimsleikana í Crossfit þar sem hún keppti svo frá 4.-6. ágúst í Madison, Wisconsin.
Bergrós er dóttir Berglindar Hafsteinsdóttur og Björns Breiðfjörð, hún er fædd og uppalin á Selfossi og hefur stundað nám í Sunnulækjarskóla síðustu 9 árin en er nýlega flutt til ömmu sinnar og afa í Reykjavík þar sem hún vinnur að því að klára 10. bekk við grunnskólann NÚ.
NÚ er grunnskóli sem veitir unglingum tækifæri til að samtvinna íþróttaáhuga sinn og grunnskólanám þar sem nemandinn sinnir námi sínu af sama áhuga og íþróttinni. Með nútímatækni og nýjum kennsluaðferðum veitir skólinn nemendum frelsi til að nálgast námið á eigin forsendum. Skólinn leggur upp með að skapa umhverfi þar sem nemendur finna til ábyrgðar, áhuga, heilbrigði og umfram allt ánægju. En Bergrós er á svokallaðri afreksíþróttabraut í NÚ.
Berglind og Bergrós tóku á móti blaðamanni Dagskrárinnar á 16 ára afmælisdegi Bergrósar, þann 6. febrúar sl., en hún hafði fengið frí úr skólanum til að geta eytt deginum í faðmi fjölskyldunnar og að sjálfsögðu nýtti þessi drífandi unga kona daginn líka til þess að fara í fyrsta ökutímann og fá leyfi til æfingaaksturs.
Alltaf verið kappsöm
„Ég hef alla mína ævi verið í íþróttum og verið mjög kappsöm frá því að ég man eftir mér. Ég fann strax að CrossFit var fullkomin íþrótt fyrir mig. Allt við íþróttina heillaði mig svo mikið. Ég setti mér strax stór markmið fyrir íþróttina og hef ekki litið til baka síðan, þetta hefur verið geggjað ferðalag. Ég var að verða 12 ára (fyrir 4 árum) þegar ég byrjaði að æfa, eftir að hafa suðað í mömmu um að fá að byrja, eins og Bjarki, 4 árum eldri bróðir minn sem var kominn á fullt í CrossFit á þeim tíma. Eftir að hún kom að mér úti í skúr, þar sem ég var búin að útbúa lyftingastöng úr kústskafti með mótorhjóladekkjum á sitthvorum enda, játaði hún sig sigraða og leyfði mér að prófa,“ segir Bergrós.
„Þegar ég var yngri fékk ég að prófa flestar íþróttir sem eru í boði hérna á Selfossi, ég fór í fimleika í svona hálft til eitt ár, síðan í frjálsar, fótbolta, handbolta og mótocross, ég prófaði líka dans en ég entist lengst í handbolta og mótocross svo ég myndi segja að grunnurinn að því hvar ég er í dag komi líklega úr handboltanum, en ég var í honum og motocrossinu í um fjögur ár. Ég fann eiginlega ekki ástríðuna fyrr en ég byrjaði í CrossFit, það er einstaklingsíþrótt og mér finnst það mun betra heldur en að vera partur af liði, að geta treyst á sjálfa mig og þurfa ekkert að pæla í neinum öðrum. Það hentar mér betur að vinna alla vinnuna sjálf, því það sem ég legg inn, það fæ ég út, ég er engum háð nema sjálfri mér,“ bætir Bergrós við.
Þegar hún er spurð um helstu fyrirmyndir hennar í íþróttinni er Bergrós fljót að svara; „Sara Sigmunds, Katrín Tanja og Annie Mist hafa verið mínar stærstu fyrirmyndir en síðan eru líka ungar stelpur að koma upp í sportinu sem eru að keppa á hæsta levelinu sem eru til dæmis Mal O’Brien og Emma Cary en þær eru líka mjög stórar fyrirmyndir fyrir mig, þær sýna manni svo vel hvað er hægt að ná langt þrátt fyrir ungan aldur.“
„Endalaust hægt að finna eitthvað til að vinna í“
„CrossFit er mjög fjölbreytt sport, það er alltaf eitthvað sem maður getur fundið til að bæta, það er eiginlega endalaust hægt að finna eitthvað til að vinna í og ég bara elska hvað það er fjölbreytt, maður þarf einhvernveginn að vera góður í öllu,“ segir Bergrós aðspurð hvað sé skemmtilegast við CrossFit.
Mataræði er stór partur af árangri í íþróttum og Bergrós er augljóslega engin undantekning á þeirri reglu. „Ég tel macros úr próteini, kolvetnum og fitu sem ég borða á hverjum degi og reyni að borða eins hreint fæði og ég get til þess að fá sem mesta næringu út úr fæðunni sem ég borða. Ég er hjá næringarþjálfara sem breytir næringarhlutföllunum fyrir mig eftir álagi á æfingum, ég borða meira þegar ég er að æfa meira og svo minnka ég skammtana þegar ég æfi minna,“ segir Bergrós.
Les bækur sem styrkja andlegu hliðina
Þá segir Bergrós að á venjulegum æfingadegi, eftir að hún flutti í bæinn sé hún að vakna um 7:40. „Ég fæ mér að borða og geri mig klára í daginn. Síðan fer ég í skólann sem byrjar kl. 9 og er í honum til 14-14:30, svo fer ég í strætó, beint á æfingu og er þar frá 15-19:15 ca og fer þaðan beint heim, fæ mér að borða, fer í sturtu, vinn aðeins í líkamanum, sé til þess að allt sé í góðu standi. Síðan svona reyni ég að lesa eitthvað til að ná mér aðeins niður eða horfi á einhvern góðan þátt til þess að slaka aðeins á eftir daginn, svo fer ég að sofa í kringum 23, þannig að ég nái alltaf 9 tímum. Ég þarf að vera mjög skipulögð, ef ég ætla að ná markmiðunum sem ég hef sett mér þá kemur eiginlega ekkert annað til greina. Þegar ég les er ég yfirleitt að lesa bækur fyrir andlegu hliðina, bækur sem hjálpa til við að bæta og styrkja hugann og verða sterkari andlega, sem skilar sér á æfingum og í keppnum. Stundum les ég líka bara venjulegar skáldsögur til að ná mér niður eftir daginn.“
Kom ekkert annað til greina en að segja já
Bergrós fékk stjörnur í augun þegar keppnin með Annie Mist bar á góma. „Við Annie Mist erum að æfa á sömu stöð. En að fá að keppa með henni, úff! Ég var svo stressuð, ég var í nokkra daga bara að taka það inn, því hún er jú ein af mínum stærstu fyrirmyndum. Fyrirvarinn var ekki mikill, það var undankeppni fyrir Reykjavíkurleikana og við ákváðum að keppa 2 dögum fyrir það. Þar komu bækurnar sterkar inn, ég finn alveg mun á hausnum á mér, hvernig ég höndlaði pressuna sem ég setti á sjálfa mig og stressið sem kom fyrir keppnina. Skipuleggjendur mótsins voru að spjalla við mig um hvort ég væri ekki að fara að keppa á þessu móti, ég sagði þeim að ég vildi ekki keppa í liði því það höfðar ekki til mín en þegar þau spurðu mig hvort ég hefði áhuga á að keppa með Annie Mist sagði ég auðvitað já, það kom ekkert annað til greina. Þau töluðu svo við Annie og hún var til í að keppa með mér sem mér þótti mjög gaman.“
Ótrauð heldur Bergrós áfram að æfa fyrir næstu heimsleika sem haldnir verða í ágúst, en til þess að komast þangað, þarf hún að komast í gegnum þrjár undankeppnir svo framundan eru þéttbókaðir mánuðir af æfingum hjá þessari ungu kjarnakonu og verður gaman að fylgjast með henni byggja sig upp í íþróttinni á komandi mánuðum og árum.