1.7 C
Selfoss

Nautasteik með bernaise og bestu kartöflum lífs ykkar

Hildur Øder Einarsdóttir er sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Ég byrja að sjálfsögðu á því að þakka góðvinkonu minni henni Gunndísi fyrir að skora á mig. Ég er enginn landsliðskokkur en þykir gaman að möndla eitthvað í eldhúsinu af og til þegar ég hef tíma. Stundum heppnast það vel, en oftast ekkert svakalega vel. Það er samt eitt sem klikkar aldrei og það er góð nautasteik með bernaise. Ég ætla því að hjálpa ykkur að velja hvað þið ætlið að fá ykkur um helgina og þið ætlið að fá ykkur góða steik með kartöflum a‘la Konni bró, þið verðið ekki svikin.

Bestu kartöflur lífs ykkar:

4 Stórar bökunarkartöflur
1/2 Mexico ostur
Rjómaostur
Sýrður rjómi m graslauk
Beikon

Gott er að setja kartöflunar inn í ofn nokkru fyrr því þær taka slatta tíma að eldast. Meðan að þær eru að eldast skerið beikonið niður í litla bita og steikið þar til það verður stökkt. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær skornar langsum. Skafið innan úr kartöflunum og setjið í skál. Því næst rífið mexico ostinn, setjið góða slummu af rjómaosti og sýrða rjómanum í skálina með kartöflunum og hrærið vel. Þegar allt er orðið mjúkt og gott bætið beikoninu við og hrærið. Þegar blandan er tilbúin er hún aftur sett í kartöflurnar og þær svo settar aftur inn í ofn í svona 10 mín. Nú eru engar sérstakar mælingar það er bara að slumpa og smakka til, svo er bætt við eftir þörfum.

Nautasteik:

Góð steik úr kjötbúrinu 😉

Treysti á að þið kunnið að elda góða steik, ef ekki þá er bara að steikja hana upp úr smjöri svona sirka mínútu á hverri hlið, stinga svo inn í ofn þar til steikin hefur náð um 52 gráðu kjarnhita, taka þá kjötið út og leyfa því að hvíla í 10 mín.

Ég mæli svo með góðri bernaise sósu með þessu, allir hafa sínar skoðanir á því hvaða sósa er best en þið veljið það bara sjálf.

Bernaise sósa:

6 eggjarauður
500 gr smjör
1msk estragon
1msk bernaise essence

Setur eggjarauður, bernaise essence og estragon í skál og þeytir í sirka mínútu, bræðir 500gr af smjöri og hellir því síðan hægt og rólega út í blönduna á meðan þú þeytir þar til sósan er orðin fluffy og góð. Hægt að setja hálfan tening af nautakraft út í sósuna ef fólk vill prófa að sleppa sér.

Svo er ekkert amalegt að smjörsteikja aspas með hvítlauk og salti og þið eruð golden með geggjaða veislu.

Ég vil svo skora á mesta matarmann sem ég þekki, listakokkinn hann Hákon bróðir minn að koma með uppskrift í næstu viku.

Fleiri myndbönd