-4.1 C
Selfoss

Lög Valgeirs flutt af unglingakór Selfosskirkju

„Friður á jörð og verndun móður jarðar“

Boðið verður upp á samverustund og kvöldmessu í Selfosskirkju kl 20 þann 12. febrúar.  Boðskapur um frið á jörðu og verndun Móður jarðar útfrá flutningi laga og texta Valgeirs Guðjónssonar.

Unglingakór Selfosskirkju undir stjórn Edit Molnár hefur að undanförnu verið að æfa lög Valgeirs Guðjónssonar þar sem boðskapur um frið á jörðu og nátttúrvernd er undirtónninn.

„Það hefur sjaldan verið eins augljóst að við þurfum nú öll að taka höndum saman og tengja hugi þegar kemur að þessu tvennu,“ segir Ásta Kristrún, kona Valgeirs, sem kom á samstarfinu við Selfosskirkju.

„Valgeir á óhemjufjölda laga í sínum laga- og textabanka, bæði ný og eldri sem við teljum að geti notið sín í flutningi kóra af ólíkum toga. Við höfum örlitla reynslu af slíku samstarfi í einu tilviki voru það tónleikar þar sem flytjendur voru nokkrir barnakórar í Langholtskirkju og einnig tónleikar með Karlakór Rangæinga sem í báðum tilvikum var hreint dásamleg upplifun,“ segir Ásta.

„Ófriður í heiminum geisar víða og áhrifa þeirra gætir um heim allan. Það var sannarlega mikið reiðarslag þegar stríðið í Úkraínu braust út sem enn sést ekki fyrir endann á. Eitt laganna sem Valgeir flytur tileinkar hann þeirri þjáðu þjóð á þessu kvöldi. Uppbyggingasjóður Suðurlands veitti Bakkastofu styrk til að raungera samstarfið hér í okkar byggðarlagi og við vonumst til að kvöldmessan þann 12.febrúar verði upphaf að farsælu samstarfi hér og víðar,“ segir Ásta Kristrún.

Aðspurð segir Ásta að Valgeir muni sjálfur flytja sum laganna og Edit einnig leika undir ef svo ber við. „Séra Arnaldur Bárðarson opnar og leiðir bæn og blessun en ég verð með stuttar hugleiðingar fyrir eða eftir hvert lag og tengi þannig við boðskap þeirra.“

Þá segir Ásta að Unglingakórinn komi líka á æfingu í Bakkastofu með stjórnanda sínum, í „ hús skáldsins“ eins og Edit orðar það. „Það verður bæði stór og falleg stund, en kórinn skipa 14 stúlkur á aldrinum 13-16 ára. Ég mun gefa þeim ekta heitt Bakkastofusúkkulaði með þeyttum rjóma og án efa líka segja þeim örlítið frá lífi okkar Valgeirs hér á Eyrarbakka. Vera okkar hér er þétt ofin tónlistinni jafnt í núi og frá þeim tíma sem Eyrarbakki varð upphafsreitur tónlistar á Suðurlandi.“ Að lokum segir Ásta að draumurinn sé að halda kórasamstarfinu áfram með flutningi á lögum Valgeirs og halda þá jafnvel tónleika í Eyrarbakkakirkju í vor og í kringum páska.

Fleiri myndbönd