Hamarsmenn tóku á móti Aftureldingu í Úrvalsdeild karla í blaki í gærkvöld.
Eftir tap Hamars gegn KA í síðustu umferð var ljóst að Afturelding ætlaði sér að leika sama leik og gestirnir gáfu ekkert eftir.
Fyrsta hrinan var hörku spennandi og þurfti upphækkun til að knýja fram úrslit. Að lokum hafði Hamar sigur 33-31. En þar með var blaðran sprungin og Afturelding vann næstu hrinur 22-25, 17-25 og 14-25 og leikinn þar með 4-1.
Hamarsmenn áttu engin svör við öflugum varnarleik Aftureldingar og á sama tíma átti Hafsteinn Már Sigurðsson í liði Aftureldingar stórleik í sókninni. Við honum áttu Hamarsmenn heldur engin svör og þegar upp var staðið skoraði hann 24 stig og var að öðrum leikmönnum Aftureldingar ólöstuðum, maður leiksins.
Þar með var annar tapleikur Hamars í röð staðreynd en liðið heldur þó enn toppsætinu með 25 stig, með tveggja stiga forystu á Aftureldingu en eiga þó einn leik til góða.