3.9 C
Selfoss

Þjóðin og ég

Frá falli bankana 2008-9 hefur umræðan eingöngu snúist um orsök vandans og að finna sökudólga þess hvernig fór og hvess vegna. Fram á völlinn hafa komið í löngum röðum menn, oftast hagfræðimenntaðir, sem háskólarnir hafa framleitt á færibandi með EXCEL gráðu, og sett upp í súluritum niðurstöður um hvað var gert rangt og hvernig hefði átt að gera þetta. Það er til fullt af velmenntuðum mönnum á þessu sviði sem ekki taka þátt í þessari umræðu vitandi að leysa verður vandann eins og hann snýr að þjóðinni í dag og í náinni framtíð. Auðvitað eru vítin til að varast þau.

Heimskreppan 1930-1940 var mikið í umræðunni á mínum uppvaxtarárum, og atvinnu ekki að hafa nema til sjós og í landbúnaði og mikið atvinnuleysi á landsvísu. Það má segja að heimsstyrjöldin síðari hafi komið atvinnuveginum í gang á ný og stríðsgróðinn, allavega á Íslandi, notaður til að snúa atvinnumálum landsins til betri tíðar. En Adam var ekki lengi í Paradís, allir togararnir sem keyptir voru fyrir stríðsgróðann voru reknir með tapi, bæjarútgerðirnar fengu fé úr bæjarsjóðum og fella varð gengið trekk í trekk. Á þessum viðreisnarárum ríkis og félagshyggju urðu litlar framfarir í landinu og þjóðin bjó við gjaldeyrishöft og atvinnuleysi.

Það virtist hafa átt að rétta við þjóðarbúið með nýrri viðreisn með haftabúskap, ríkisrekstri og tilheyrandi. Upp úr 1950 kom gjafafé (Marshalllaðstoðin) til sögunnar og ráðist var í fyrstu uppbyggingu stóriðju á Íslandi, með virkjun Sogsins og byggingu áburðar- og sementsverksmiðjanna. Það má segja að þar hefjist nýir tímar í atvinnumálum landsins og einstaklingar og einkarekin fyrirtæki tóku við af ríkis og bæjarrekstri. Þetta hefur skilað okkur þangað sem við erum í dag.

Í þau 60 ár sem liðin eru síðan þessi uppbygging og nýting orkuauðlinda hófst hafa orðið stórstígar framfarir, má þar telja vegagerð uppbygging hafna, mennta og heilbrigðiskerfið. Nýir atvinnuvegir t.d. ferðaþjónusta, fjármálastarfsemi og ýmsar iðngreinar hér heima og erlendis. Það má segja að mesta breytingin á þessu tímaskeiði sé þegar hugvitið og tæknin taka yfir hluta starfa hins vinnandi mans í hinum hefðbundnu atvinnuvegum og ný störf verða til. Margt af því sem áunnist hefur á þessu tímabili voru nágrannaþjóðirnar búnar að vera að bygga upp í aldir, en í dag stöndum við þeim ekki langt að baki og á sumum sviðum fremri. Sú kreppa sem núna stendur yfir er að mörgu ólík þeim  niðursveiflum sem gengið hafa yfir á undangengnum áratugum og leystar voru með gengisfellingum og gjaldeyrishöftum. Það má segja að þegar íslenska krónan er sett á flot með jafn lítið hagkerfi og það íslenska, hafi það ekki ráðið við atburðarásina, eða löggjöfin ekki sett nógu skýr eða haldgóð lög til þess að ekki fór sem fór.

Það unga og velmenntaða fólk sem tekið hefur þátt í því opna hagkerfi og alþjóðaviðskiptum mun ekki sætta sig við að vera lokað á eyju norður í Atlanshafi við aðra möguleika en jafnaldrar þeirra í nágranalöndunum.Það þýðir ekki að segja eftirá að það hafi verið einhverjir 20 útrásamenn sem leiddu þessi ósköp yfir þjóðina þótt hlutur þeirra sé ærinn, það tóku margir þátt í veislunni og súpa nú seyðið af timburmönnunum.

Við Íslendingar búum við lýðræði og tölum á hátíðisstundum um elsta löggjafaþing heims, en þegar þessi kreppa með tilheyrandi bankahruni skall á leysti hópur fólks með potta og pönnur löggjafann frá.

Þá kemur að fyrirsögn þessarar greinar, Þjóðin og ég. Ég tel mig vera svona sæmilega löghlýðinn íbúa þessa lands og er stoltur af uppruna mínum og þjóðerni, en forbýð að hópur fólks fari fram fyrir mína hönd og kalli sig þjóð og hunsi lýðræðiskjörið löggjafarþing landsins.

Endurminningar Sigurðar Jónssonar úr Ásgerði síðan árið 2010.

Fleiri myndbönd