-5.5 C
Selfoss

Ég les allar ungmennabækur sem ég næ í

…segir lestrarhesturinn Guðbjörg Dóra Sverrisdóttir

Guðbjörg Dóra Sverrisdóttir er Selfyssingur, fædd í húsi ömmu sinnar og afa nr. 27 við Austurveginn. Eftir nám í barna- og unglingaskóla tók hún sér um áratugar hlé en hóf þá nám aftur. Hún er með BA próf í íslensku frá Háskóla Íslands og uppeldis- og kennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri. Í dag kennir hún við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er núna með bókina Inngangur að efnafræði eftir Bonnie Garmus. Bókin vakti fyrst áhuga minn vegna titilsins, það er ekki á hverjum degi sem skáldsaga ber titil sem lítur út eins og titill kennslubókar. Það eru einkum titlarnir og hönnun kápu sem grípa athygli mína og verða þess valdandi að ég les bækur eftir höfunda sem ég hef ekki heyrt um áður.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Glæpa- og spennusögur finnast mér skemmtilegar, sérstaklega ef þær eru eftir íslenska höfunda. Annars les ég alls konar skáldsögur, bæði innlendar og þýddar. Skáldsögur með margslunginni fléttu eða góðri persónusköpun eru heillandi. Þá finnst mér að ef bækur eru skrifaðar eða þýddar á litríku, myndrænu og góðu máli þá heilli þær mig alltaf. Ég get jafnvel gleymt mér yfir stöku skemmtilegu orði eða setningu í sumum þeirra. Einu bækurnar sem ég festi ekki almennilega hugann við eru ævisögur, mér finnst ég alltaf vera að kíkja inn í líf fólks og verð bara pínu feimin við að sjá og upplifa allt sem þar kemur fram.

Ertu alin upp við bóklestur?

Það var ekki lesið mjög mikið fyrir mig þegar ég var barn en þó hefur það líklega verið meira en minni mitt nær til. En ég las mikið sjálf og það þótti eðlilegt og sjálfsagt að vera sífellt með bók. Ég man eftir mörgum bókum sem mér fannst skemmtilegar en heilluðust var ég af bókum Enid Blyton, sérstaklega Fimm bókunum. Það er eitthvað við bækur Blyton sem nær börnum og heldur þeim. Ég held meira að segja að þarna hafi ég stigið mín fyrstu skref í átt að jafnréttishugsun í gegnum Georgínu sem var strákastelpa og afar skemmtileg og klár.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Í dag les ég oft prentaðar bækur en ennþá oftar vel ég að hlusta á hljóðbækur. Ég vandist því auðvitað, eins og mín kynslóð, að í útvarpi voru lesnar sögur. Þar hófst áhugi minn á hlustun. Ég man eftir að hafa hlustað á Silju Aðalsteinsdóttur og Hjalta Rögnvaldsson lesa unglingasögur. Bæði voru þau afburða lesarar. Einnig man ég að þegar ég vann í gróðurhúsi sem unglingur tókum við kaffitímann á þeim tíma sem miðdegissagan var lesin til að geta hlustað. Þegar hljóðbækur komu til sögunnar á steymisveitum eins og Storytel datt ég í hlustunina fyrir alvöru. Ekki er ekki óalgengt að ég hlusti á eina til tvær bækur á viku og stundum fleiri. Kosturinn við að hlusta frekar en að lesa er að á meðan er hægt að sinna öðru eins og eldamennsku og heimilisþrifum.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Ég á marga uppáhaldshöfunda. Ég held mikið upp á Ólaf Jóhann Ólafsson, Sigríði Hagalín og Vilborgu Dagbjartsdóttur sem semur af mikilli þekkingu sögur sem fjalla um forna tíma. Glæpasagnahöfundarnir Stefán Máni, Yrsa, Arnaldur og Ragnar Jónasson heilla mig einnig. Svo eru þær Hildur Knúts, Sif Sigmars og Þórunn Rakel fínir ungmennahöfundar. Ég les einnig allar ungmennabækur sem ég næ í til að fylgjast með, enda nauðsynlegt hverjum íslenskukennara að vita hvað í boði er.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Það hafa fjölmargar bækur rænt mig svefni, þó ekki í jafnmiklum mæli í seinni tíð og þegar ég var ung. Þá átti ég oft erfitt með að fara að sofa fyrr en lestri bókar var lokið. Í dag ræna bækur mig stundum svefni, sérstaklega spennubækur. Ein bók greip mig þó svo um daginn að ég fór seint að sofa hennar vegna og á fætur fáeinum tímum síðar og lauk lestri hennar. Það var þó ekki vegna þess að hún væri svo spennandi heldur vegna þess að efni hennar var áhugavert og ekki síður sjónarhornið sem var síbreytilegt. Þetta var bókin Sonur minn eftir Aljandro Palomas.

En að lokum Guðbjörg Dóra, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ef ég væri fær um að skrifa bækur myndi ég vilja skrifa bækur fyrir börn og ungmenni þótt það sé örugglega erfiðasta formið. Í starfi mínu sem kennari hef ég séð hversu mikið ungt fólk lærir í gegnum bókmenntirnar og hvað orðaforði þeirra verður miklu betri við lestur. Með góðan orðaforða í farteskinu verður allt nám auðveldara, enda kalla flóknar fræðibækur á góðan orðaforða.
__________________________________________________

Umsjón með Lestrarhestinum hefur Jón Özur Snorrason – jonozur@gmail.com.

Fleiri myndbönd