1.7 C
Selfoss

Yngstu börnin í leikskólunum

…Eiga þau heima þar?

Þann 6. febrúar næstkomandi er haldið upp á Dag leikskólans í fjórtánda sinn. Þennan dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara sín fyrstu samtök. Leikskólar landsins halda uppá daginn með fjölbreyttum hætti og stuðla að umræðu um leikskólastarfið frá ýmsum sjónarhornum. Í þessum pistli ætla ég að ræða vistun og vistunartíma yngstu barnanna í leikskólunum.

Á tiltölulega stuttum tíma hefur bið eftir leikskólavist farið úr 24 mánuðum niður í 12 mánuði. Sveitarfélögin virðast þar vera að svara kalli þeirra sem þau telja helstu hagsmunaaðila það er, foreldra og atvinnulíf. Yngstu börnin hafa ekki rödd í samfélaginu. Óhætt er að segja að loforð um 8 stunda leikskólavist frá 12 mánaða aldri er úr takti við allar rannsóknir og fræðigreinar um tengslamyndun barna við foreldra sína og ég saknaði þess úrumræðunni að fáir veltu fyrir sér hvaða hag 12-18 mánaða börn hafa af leikskólavist?

Síðustu áratugi hafa rannsakendur í auknum mæli rýnt í þroska barna og tengslamyndun út frá hagsmunum barnanna og talsvert til af efni um niðurstöðurnar til dæmis bókin „Fyrstu 1000 dagarnir“ eftir Sæunni Kjartansdóttur.

 Í óbirtri skýrslu Harðar Svavarssonar leikskólakennara https://www.ki.is/um-ki/utgafa/frettir-og-pistlar/skolavardan/2022/of-morg-born-i-of-litlu-plassi/ sem kemur út á Skemman.is næsta haust, kemur fram að leikrými barna í leikskólum er víða 1,37 fm, sem er álíka og venjulegt IKEA barnarúm. Fagfólk telur að 5,7 fm ætti að vera lámarksrými. Rannsókn Harðar sýnir að til þess að kreista út úr byggingunum eins marga fermetra og unnt er, þá er farið að miða við utanmál veggja auk þess að grunnflötur er mældur án þess rýmis sem innréttingar eða starfsfólk tekur. Skýrslan heitir „Börnin í veggjunum“ og ætti að vera skyldulesning allra sem koma að rekstri leikskóla. Úr þessum aðstæðum forða margir starfsmenn leikskóla sér en börnin hafa ekki val.

Það er varla forsvaranlegt að bjóða yngstu börnunum upp á það að fara af heimilinu og beint í átta stunda vist í leikskóla og þrengja um leið að þeim sem fyrir eru. Ef svo væri ætti að miða við fjóra tíma á dag fyrstu sex mánuðina. Hina fjóra tímana mætti bæta upp með myndarlegum heimgreiðslustyrk til foreldra barna 12-18 mánaða og slá þannig nokkrar flugur í einu höggi. Það þarf ekki að manna eins margar stöður, leikrými hvers barns eykst og sveitarfélög þurfa síður að fjárfesta í dýru húsnæði, því eins og staðan er í dag eru yngstu börnin oft hrein viðbót í rými flestra leikskóla. Í Rangárþingi ytra hafa heimgreiðslur til foreldra yngstu barnanna verið við lýði um nokkurn tíma og eru 80 þúsund krónur á mánuði. Auka mætti hvata foreldra til að nýta sér þær til dæmis með því að þær skerðist ekki ef vistunartími barnsins fer ekki yfir 4 tíma fyrstu sex mánuðina.

Leikskólinn er „vinnustaður“ barnanna og umræðan á að snúast um hagsmuni þeirra fyrst og síðast út frá þeirra forsendum. Ef við byrjum þar græða allir. Börnin, starfsfólkið og samfélagið.

Steindór Tómasson.
Höfundur er með B.Ed. í leikskólakennarafræðum
og starfar í Leikskólanum Laugalandi í Rangárþingi ytra

Fleiri myndbönd