-6.6 C
Selfoss

1. febrúar – Dagur kvenfélagskonunnar

Vinsælast

Hvers vegna er dagur kvenfélagskonunnar haldinn hátíðlegur 1. febrúar? Því er til að svara, að þennan dag árið 1930 var Kvenfélagasamband Íslands stofnað til að verða samstarfsvettvangur allra kvenfélaga á Íslandi. Þau voru þá þegar orðin fjölmörg en fyrsta kvenfélagið, Kvenfélag Rípurhrepps, var stofnað árið 1869. Konur hafa síðan þá stofnað hundruð kvenfélaga með það að markmiði að bæta samfélagið, sérstaklega hvað varðar málefni barna, kvenna og fjölskyldna. 

Segja má að með stofnun kvenfélaga hafi konur á Íslandi að einhverju leyti tekið völdin í sínar hendur, löngu áður en þær fengu aðgengi að stjórnkerfi landsins með kjörgengi og kosningarétti árið 1915. Elst kvenfélaga á Suðurlandi er Kvf. Eyrarbakka en það var stofnað árið 1888. 

Störf kvenfélagskvenna eru og hafa verið samfélaginu öllu afar mikilvæg, þó ekki hafi þau alltaf farið hátt eða mikið farið fyrir þeim í fjölmiðlum. Það var því löngu orðið tímabært að sérstakur dagur yrði helgaður kvenfélagskonum, þegar formannaráð K.Í. útnefndi stofndag sinn 1. febrúar sem ,,Dag kvenfélagskonunnar” árið 2010. Eftir útnefninguna hefur verið unnið að því að festa daginn í sessi með ýmsum hætti og er hans nú getið á flestum dagatölum og dagbókum. Einnig senda mörg sveitarfélög kveðjur til kvenfélagskvenna með auglýsingum í RÚV þennan dag, til að þakka fyrir framlag þeirra til samfélagsins.

Kvenfélagasamband Íslands er sameiningar- og samstarfsvettvangur allra kvenfélaga á landinu. Innan þess eru 17 héraðsambönd með um 4500 félaga. Það gefur út tímaritið Húsfreyjuna og rekur einnig Leiðbeiningastöð heimilanna, sem veitir fría ráðgjöf og upplýsingaöflun að öllu er varðar rekstur á heimili. Núverandi forseti KÍ heitir Dagmar Elín Sigurðardóttir í Kvf. Garðabæjar en úr röðum sunnlenskra kvenna kemur gjaldkeri KÍ Magðalena K. Jónsdóttir Kvf. Fjallkonan. Einkunnarorð kvenfélagastarfs á Íslandi eru: Samvinna – Kærleikur – Virðing.

Samband sunnlenskra kvenna er eitt þessara héraðssambanda innan K.Í. Það var stofnað af kvenfélögunum árið 1928 og fagnar því 95 ára afmæli sínu á þessu ári. Formaður þess er Elinborg Sigurðardóttir í Kvf. Biskupstungna. Innan SSK eru nú starfandi 25 kvenfélög í Árnes- og Rangárvallasýslu með rétt um 900 félaga. Einkunnarorð starfsins eru: ,,Virðum veröld – Vöndum valið – Nýtum nærumhverfi” og hafa fræðsluerindi í ljósi þeirra verið flutt á fundum sambandins. Kvenfélagskonur eru á öllum aldri og þær vita að sjálfboðin störf þeirra eru mjög mikilvæg samfélaginu á hverjum stað. Þær finna ætíð fyrir gleði og hamingju þegar þeim hefur tekist að safna nægum fjármunum til að geta gefið þangað sem þörfin er brýnust hverju sinni.

Kvenfélagskonur á sambandssvæðinu hafa frá árinu 2010 prjónað og heklað ýmsar gjafir fyrir nýbura á Suðurlandi. Ljósmæður á HSU hafa séð um dreifingu þeirra og segja þær mikla ánægju með þessar gjafir hjá nýbökuðum foreldrum. Það eru því vonandi margir litlir Sunnlendingar, sem í tímans rás hafa fundið yl af húfu, vettlingum, sokkum eða öðru sem unnið hefur verið af kærleiksríkum kvenfélagshöndum.

Sjúkrahúsið á Selfossi er og hefur frá stofnun þess verið óskabarn SSK. Ánægjulegt var að geta loks í lok nóvember afhent formlega til HSU gjafir, sem urðu til á Covid tímum, samtals að verðmæti um 2,5 miljónir króna, þ.e. súrefnismettunarmæla og gulumæli fyrir nýbura.

Í desember afhenti stjórn SSK einnig í nafni kvenfélaganna 100 þús. kr. peningastyrk til Sigurhæða en það er úrræði fyrir konur af Suðurlandi sem hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi. 

Fulltrúi Sigurhæða tekur við peningastyrk frá kvenfélögum innan SSK.

Árlega sl. 39 ár hefur SSK gefið út ársrit í tengslum við aðalfund sinn. Þau eru sögulegar heimildir um það mikla starf sem innt hefur verið af hendi í kvenfélögunum á sambandssvæðinu. SSK hefur í áranna rás látið binda þau inn til eignar á skrifstofu sinni og jafnframt afhent Konubókastofu á Eyrarbakka innbundin eintök til varðveislu, það nýjasta var afhent þangað í desember.

Kvenfélög, kvenfélagskonur og landsmenn eru hvött til að muna eftir Degi kvenfélagskonunnar. Munum að í kvenfélögunum á Suðurlandi fer fram afskaplega fjölbreytt og skemmtilegt starf. Öll verkefni sem okkur eru falin hafa þroskað okkur á einhvern hátt. Þátttaka í sjálfboðnum verkefnum og að geta unnið öðrum til heilla gefur gleði í hjartað. Konur eru hvattar til að kynna sér störf kvenfélaganna í sínu byggðalagi og leggja þeim lið. 

Elinborg Sigurðardóttir

Nýjar fréttir