Við hjá Dansakademíunni kennum rúmlega 160 börnum í hverri viku. Við fáum að fylgjast með þeim uppgötva listsköpun, taka framförum, auka sjálfstraustið sitt og skapa vináttur. Það er okkur dýrmætt að sjá litlu dansfjölskylduna okkar stækka. En stækkandi fjölskyldu fylgja vaxtaverkir… Hvar eiga þessir dásamlegu nemendur okkar að fá að halda danssýningarnar sínar?
Það kom til mín 7 ára nemandi sem spurði „hvers vegna sýnum við í Sunnulækjaskóla en ekki í leikhúsi?“. Lausnamiðaða ég útskýrði fyrir hópnum að við værum nú eiginlega að bíða eftir að menningarsalurinn yrði kláraður, en þangað til myndum við gera okkar besta að skapa leikhús í íþróttahúsinu í Sunnulækjarskóla. Nemandinn tók svarið í sátt og sýndi mér skilning á því að við værum að gera okkar besta í stöðunni. Svo í lok kennsludagsins þegar ég var á heimleið varð mér hugsað til þessa samtals.
Hversu lengi þurfa nemendur mínir að bíða eftir að fá að sýna í almennilegu leikhúsi?
Í hversu mörg ár þurfum við kennararnir að eyða heilu kvöldstundunum í að setja upp „svið“, ljós og ásættanlega aðstöðu fyrir nemendur okkar til að sýna í? Ég varð virkilega spæld útaf því að innst inni veit ég að sú bið verður löng. Á Selfossi er verið að reisa glæsilega aðstöðu fyrir íþróttafólk en alltaf sitja listgreinarnar á hakanum með ekkert, og þá meina ég virkilega ekkert, viðeigandi sýningarhúsnæði. Öll þau hæfileikaríku börn og ungmenni sem stunda listnám á svæðinu eiga skilið viðeigandi sýningarrými eins og íþróttafólkið á skilið góða aðstöðu. Hér á Selfossi höfum við hálfkláraðan menningarsal sem myndi skila margfalt til baka til samfélagsins.
Svo nú spyr ég alveg eins og 7 ára nemandinn minn, hvers vegna sýnum við í Sunnulækjaskóla en ekki í menningarsalnum?
Ástrós Guðjónsdóttir,
Danskennari og listunnandi
Eigandi Dansakademíunnar