3.9 C
Selfoss

Félagsmálatröll, óperusöngkona og Íslandsmeistari í blaki leiða lið FSu í Gettu betur

Vinsælast

Þau Ásrún Aldís Hreinsdóttir, Elín Karlsdóttir og Heimir Árni Erlendsson, keppendur FSu í Gettur betur, gerðu sér lítið fyrir og sigruðu lið Menntaskólans við Hamrahlíð í síðustu viku. Við heyrðum í þessu flotta unga fólki og fengum að kynnast þeim aðeins betur.

Hvaðan ertu og hvaða ár ertu fædd/ur?
Ásrún: Ég er fædd á Selfossi árið 2004 og uppalin í Odda á Rángárvöllum.
Heimir: Ég er frá Skíðbakka í Austur-Landeyjum og er fæddur 2006.
Elín: Ég er frá Eyrarbakka og er fædd árið 2005.

Hvernig endaðir þú í Gettu betur liði FSu?
Ásrún: Busaárið mitt (2020) ákvað ég að prófa að taka þátt í forvalinu, komst inn og þaðan var ekki aftur snúið.
Heimir: Ég endaði í liðinu með því að vinna að þessu síðan ég var í 7. bekk með smá hint af einhverfu kannski blandaðri þar inn einhversstaðar.
Elín: Ég hef alltaf haft áhuga á gettu betur og var varamaður í fyrra. Ég var bara svo heppin að svara mörgum spurningum rétt í forvalinu og var valin í liðið.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart við þetta ferli?
Ásrún: Já mjög mikið! Hugsunarhátturinn hjá manni breytist alveg, þú ert alltaf að hugsa „já það verður spurt um þetta“ og oftar en ekki kemur það svo í keppninni.
Heimir: Ja það hlýtur bara að vera hvað ferðirnar vestur í Efstaleiti hafa verið skemmtilegar og hvað stressið hefur verið lítið hjá mér.
Elín: Það var mjög skemmtilegt að vinna stóran gettu betur skóla eins og MH. Það sýnir kannski bara að þessi keppni er mjög óútreiknanleg.

Elín Karlsdóttir. Mynd: Dagskráin/Helga Guðrún.

Hver er þín sérþekking innan liðsins?
Ásrún: Ég tek mest á mig íslenska, landafræði, jarðfræði, leikstjóra, en ég er rosalegt „wild card“ veit eiginlega bara allskonar.
Heimir: Ég myndi kalla mig wild card af því að ég veit ýmislegt um marga hluti en helst væru örugglega íþróttirnar og erlenda landafræðin. Og svo má auðvitað ekki gleyma að henda Eurovision inn í þessa umræðu.
Elín: Listir og raungreinar. Kvikmyndir og tónlist eru sterkustu flokkarnir mínir myndi ég segja, líka líffræði og bókmenntir. Síðan bý ég í sveit og það er ýmislegt sem maður lærir þar.

Hvað fannst þér skemmtilegast við að vera í framhaldsskóla?
Ásrún: Ég hef alltaf verið mjög mikið „félagsmálatröll“og ég hef heldur betur fengið að sinna hinum ýmsu félagsstörfum á minni framhaldsskólagöngu. Eins eru forréttindi að fá að læra það sem maður hefur áhuga á.
Heimir: Það er eflaust frelsið og hvað námið til þessa hefur verið létt.
Elín: Kynnast nýju fólki og að hitta vini mína á hverjum degi. Líka það að uppgötva og læra um hluti sem ég hélt að ég hefði engan áhuga á.

Hvernig er dæmigerður dagur í þínu lífi?
Ásrún: Ætli ég myndi ekki byrja á því að vakna, græja mig fyrir skólann og að öllum líkindum mun ég mæta seint í tíma því ég er yfirleitt sein… á frábærum degi myndi ég líklega nenna í ræktina en vanalega er það ekki forgangur. Annars fer ég nánast daglega á fundi hvort sem það er í ungmennaráði, nemendaráði eða í öðru starfi. Og að sjálfsögðu er gettu betur æfing nær daglega.
Heimir: Dæmigerður dagur er bara þannig að ég vakna við Hiroshima eftir Utangarðsmenn á hverjum degi og fer í skólann eftir morgunrútínuna. Dagana fáu sem ég þarf ekki að mæta á æfingar fyrir GB eru oftast fylltir af mér að spila á píanóið eða mæta á einhvers tags íþróttaæfingar. Horfi svo á einn eða tvo þætti af Survivor áður en ég fer að sofa við Bubbaplaylistann minn.
Elín: Vakna, fara í skólann, fara heim, syngja og spila á píanó, læra ef ég þarf það, spjalla við vini mína, spila tölvuleiki, lesa, fara að sofa. Ég borða líka nokkrum sinnum einhversstaðar þarna á milli.

Handahófskennd staðreynd um þig?
Ásrún: Ég ólst upp í sveit og elskaði að vera í fjárhúsinu, sakna þess hrikalega að finna kindalyktina.
Heimir: Ég hef verið Íslands eða héraðsmeistari í 5 íþróttum.
Elín: Ég á HSK-met í 3000 m hlaupi.

Ásrún Aldís Hreinsdóttir. Mynd: Dagskráin/Helga Guðrún.

Hvert er þitt mesta afrek í lífinu?
Ásrún: Það er mikið sem ég hef afrekað og ég er eiginlega bara ánægðust með hvert ég er komin í dag. Eins var ég samt drullu ánægð þegar ég náði bóklega bílprófinu eftir þó nokkrar tilraunir.
Heimir: Annað hvort að vinna Rey Cup, verða Íslandsmeistari í blaki eða bara að komast í sjónvarpið sem busi í Gettu Betur.
Elín: Að ná svona langt í gettu betur og að vera kynnir á setningu unglingalandsmótsins 2022.

Hvaða bók lastu síðast?
Ásrún: Bestu bók í heimi, Bróðir minn ljónshjarta.
Heimir: Ég les nú svakalega lítið en ég er nýbúinn að lesa bókina Úti eftir Ragnar Jónasson sem kjörbók fyrir íslensku.
Elín: Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson.

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður „stór“?
Ásrún: Draumurinn er að vera fréttakona, eða bara vinna í sjónvarpi.
Heimir: Það eru nú svakalega margir draumar sem maður á mínum aldri hefur. Aðaldraumarnir mínir nú á dögum eru að verða atvinnumaður í óákveðinni íþrótt, fréttamaður hjá RÚV, tónlistarmaður eða lögmaður. Svo lifir maður í voninni um að Felix Bergsson bjalli einhverntímann í mann og spyr mann um að vera álitsgjafi í Alla Leið.
Elín: Mig langar að verða krabbameinslæknir.

Heimir Árni Erlendsson. Mynd: Dagskráin/Helga Guðrún.

Uppáhalds staður?
Ásrún: Þórsmörk og Veiðivötn hafa alltaf verið uppáhalds.
Heimir: Þetta er alveg svakalega erfið spurning. Ég hef farið vítt og breitt um heiminn. Anfield og þýska safnið í München standa fremst í minningunum. Salur Monu Lisu í Louvre er líka svaka minnisstæður. En verður maður nú ekki bara að koma með gamla orðatiltækið heima er best?
Elín: Bókakaffið á Selfossi.

Hvað getur/hefur þú gert sem kemur fólki á óvart?
Ásrún: Ég æfði á trompet í fjögur ár og var í lúðrasveit…
Heimir: Ég hef farið til 18 landa og get haldið uppi samræðum á fimm tungumálum.
Elín: Ég get sungið óperusöng.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?
Ásrún: Draumurinn er að vera búin með háskólanám, hvað sem það verður, og að vera vinna í sjónvarpi eða í fjölmiðlum.
Heimir: Annað hvort verð ég að vinna hjá RÚV eða í Bandaríkjunum að læra í einhverjum eðal háskóla eða leika listir mínar í íþróttum.
Elín: Að ljúka námi, kannski gift eða eitthvað svoleiðis.

Nýjar fréttir