Dagskrá vorannar Félags eldri borgara á Selfossi er komin á skrið eftir jólahlé. Smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á stundaskrá frá haustönn. Krossgátukaffi er ekki í boði lengur en nýtt í stundaskrá má nefna postulínsmálun og stólaleikfimi. Um miðjan febrúar er áætlað að vera með námskeið í endurminningaskrifum (ritlist) ef næg þátttaka fæst. Kennari verður Guðmundur S. Brynjólfsson rithöfundur með meiru. Nýju stundaskrána er að finna á heimasíðu félagsins www.febsel.is og facebooksíðu Félags eldri borgara á Selfossi einnig í Dagskránni sem kom út 12. janúar síðastliðinn. Boðið verður uppá 27 viðburði þar af eru 9 sem snúa að hreyfingu. Tímataflan er það þétt að ekki verður hjá komist að einhverjir viðburðir skarist og fólk verður að velja á milli. Styrktaræfingar hafa verið í Selfosshöllinni tvisvar í viku, þriðjudaga og miðvikudaga. Fjöldi þátttakanda hefur farið uppí 80 einstaklinga svo að skipta hefur upp í tvo hópa. Fyrri hópur mætir kl. 09:30 og seinni kl. 10:30. Á uppskeruhátíð Frístunda- og menningarnefndar Árborgar í lok árs 2022 var þessu íþróttafólki eldri borgara, Heilsuefling 60+, og þjálfara þeirra, Berglindi Elíasdóttur, veitt hvatningarverðlaun fyrir árið 2022. Á fimmtudögum kl. 14:45 er Opið hús sem viðburðarnefnd stýrir. Þar er leitast við að fá einstaklinga til að flytja erindi eða segja frá einu og öðru skemmtilegu og fróðlegu. Einn fimmtudag í mánuði mæta þeir félagar Helgi Hermannsson og Ólafur Bachmann og flytja líflega tónlist.
Tveir leshópar hittast vikulega í Grænumörk, fornsögulestur og öndvegis bókaklúbbur. Sá fyrri er að lesa Brennu- Njáls sögu og hinn bækurnar Snjóblindu og Rof, eftir Ragnar Jónasson. Að loknum lestri í vor fara leshóparnir í vorferð á slóðir sagnanna. Leikhúsnefnd hefur staðið fyrir leikhúsferðum og ferð á Vínartónleika í Hörpu og fleira stendur til á vorönn. Árshátíðarnefnd efndi til árshátíðar, eftir tveggja ára hlé, í byrjun nóvember þar sem mættu um 160 manns. Aðventuhátíð var í byrjun desember, að þessu sinni í Hótel Selfoss þar sem 150 manns tóku þátt. Ferðanefnd skipuleggur þrjár ferðir næsta sumar og að auki haustferð. Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi verður haldinn fimmtudaginn 23. febrúar 2023 kl. 14:00 í félagsheimilinu Mörk. Hann verður auglýstur þegar nær dregur.
Til að fylgjast með hvað er og verður í gangi á vegum félagsins er gagnlegast að fylgjast með á facebook og heimasíðu félagsins. Félagið er alltaf með auglýsingu í Dagskránni undir liðnum „Félagsstörf“. Þeir sem hafa náð 60 ára aldri geta sótt um félagsaðild á www.febsel.is.
Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður Félags eldri borgara Selfossi