-1.1 C
Selfoss

Grunnur að góðu breytingaskeiði

Kvenfélögin sex sem starfa í uppsveitum Árnessýslu þ.e. Kvf. Biskupstungna, Gnúpverja, Grímsneshrepps, Hrunamannahrepps, Laugadæla og Skeiðahrepps ákváðu á haustmánuðum að taka höndum saman og halda sameiginlegan fræðslufund. Ákveðið var að fá Halldóru Skúladóttur markþjálfa og breytingaskeiðsráðgjafa til að koma og halda tímamótafyrirlestur fyrir konur á öllum aldri. Hann verður haldinn í Félagsheimilinu á Flúðum fimmtudagskvöldið 26. janúar n.k. kl 20-22, nefnist hann ,,Grunnur að góðu breytingaskeiði.“

Sveitarfélögin í uppsveitunum starfa saman í verkefninu ,,Heilsueflandi samfélag“ og hefur það veitt kvenfélögunum styrk til að standa að þessum mikilvæga fræðslufundi. Að auki kemur Hrunamannahreppur til samstarfs við kvenfélagið varðandi þessa kvöldstund í félagsheimilinu þeirra.

Halldóra Skúladóttir mun á fundinum kafa ofan í allt sem tengist þessu óumflýjanlega skeiði í lífi allra kvenna sem til þessa hefur lítið mátt tala um, hvernig hormónarnir virka, hlutverk þeirra og afleiðingar þegar þeir minnka eða hverfa. Á vefsíðu hennar www.kvennarad.is má meðal annars fræðast um að breytingaskeiðið er eðlilegur hluti af lífi allra kvenna. Það er meira en bara hitakóf og pirringur, margar konur finna fyrir lífshamlandi einkennum sem geta haft áhrif á sambönd, atvinnu, afkomu og framtíðarheilsu. Þær upplifa sig einar og fá oft lítinn skilning eða stuðning. Stundum koma tímabil þar sem konur upplifa eins og þær séu ekki lengur við stýrið á eigin líðan og hamingju, litlir hlutir verða næstum óyfirstíganlegir, ótrúlegustu hlutir fara að valda þeim áhyggjum, streitan magnast, drifkrafturinn hverfur á sama tíma færist doðinn yfir og lífið verður ýmist flatt eða yfirþyrmandi. Á endanum upplifa konur eins og þær séu bara skugginn af sjálfum sér, sjálfstraustið er horfið og sjálfsmyndin farin að molna.

Þetta er dökk lýsing en ef þú tengir við hana eða vilt fræðast betur um þetta óumflýanlega tímaskeið í lífi allra kvenna, þá bjóða Kvenfélögin í uppsveitum þér og öllum öðrum konum ókeypis aðgang á þennan fræðslufyrirlestur. Vinsamlegast láttu þetta áhugaverða kvöld ekki framhjá þér fara og láttu fréttina berast áfram. Þú ert hjartanlega velkomin.

Kvenfélögin í uppsveitum

Fleiri myndbönd