1.7 C
Selfoss

Bjarki Már komst í 100 marka hópinn

Heimsmeistaramótið í handbolta er nú í fullum gangi og eru synir og tengdasynir Selfoss áberandi í leikmannahópnum.

Í öðrum leik Íslands á mótinu biðum við lægri hlut með tveggja marka mun gegn Ungverjum eftir að hafa haldið forystu nær allan leikinn. Í þeim leik var Bjarki Már Elísson valinn maður leiksins í annað sinn í röð með 9 mörk. Ómar Ingi Magnússon skoraði 7/4 mörk.

Í þriðja leik Íslands komu strákarnir tvíefldir til leiks eftir tapið gegn Ungverjum þar sem við fögnuðum öruggum sigri á Suður-Kóreumönnum með 38 mörkum gegn 25. Þar var Bjarki Már Elísson með 8/3 mörk og Janus Daði Smárason með 4.

Bjarki Már kom sér í hóp sex landsliðsmanna Íslands frá upphafi sem hafa skorað 100 mörk eða meira á heimsmeistaramóti í handbolta með 106 mörk í 22 leikjum en handbolti.is tók saman lista yfir flest skoruð mörk landsliðsmanna og samkvæmt listanum er Bjarki Már með meðaltalið 4,8 sem er það næst hæsta í markaklúbbnum á eftir Guðjóni Vali Sigurðssyni sem er með meðaltalið 5,2 eftir 294 mörk í 57 leikjum með landsliði Íslands í handbolta.

Ísland hafnaði í öðru sæti í sínum riðli og fer með 2 stig inn í milliriðil. Á morgun, miðvikudag, mætum við liði Grænhöfðaeyja í Gautaborg þar sem allir leikir riðilsins fara fram. Föstudaginn 20. janúar mætum við Svíum klukkan 19:30 og á sunnudag mætum við liði Brasilíu klukkan 17.

Áfram Ísland!

Fleiri myndbönd