-3.1 C
Selfoss

Málörvun ungra barna (0-3 ára) – Góð ráð til foreldra

Börn eru félagsverur sem hafa þörf fyrir að mynda tengsl og eiga í samskiptum við aðra. Upplifun barnsins hefur áhrif á mótun taugatenginga í heila og gífurlegu máli skiptir hvernig brugðist er við tjáningu barnsins. Það er því mikilvægt að vera til staðar fyrir barnið og sýna því ást og umhyggju í gegnum snertingu og tal frá upphafi. Það er gert með því að hjala við og með barninu, bregðast við hljóðamyndun þess, ná augnsambandi og herma eftir hljóðum og hreyfingum. Þetta styður við málþroska  og er undirstaða að samskiptum og tjáningu. Hafið í huga að málörvun er að auka það mál sem barnið heyrir og það er gert með því að tala meira, bæði við barnið og um það sem verið er að gera. Í gegnum þessi hvetjandi samskipti heyrir barnið orð og setningar, það lærir rétt mál og fær hvatningu til að æfa sig í tungumálinu. Mikilvægt er að gefa sér tíma til að tala við barnið um allt mögulegt, nota rétt orð yfir hluti, hafa gott jafnvægi á milli samræðna og spurninga og síðast en ekki síst að hvetja barnið til að tjá sig sjálft með því að skapa þörf fyrir samskipti og gefa því tíma til að tjá sig. Góðar aðferðir sem styðja við málþroska ungra barna eru:

Eftirherma – Búnar eru til aðstæður sem hvetja barnið til eftirhermu. Reynt er að fá barnið til að herma eftir táknum, málhljóðum, orðum, dýrahljóðum o.fl. með því að vekja athygli á þeim. Dæmi um það gæti verið í leikaðstæðum þar sem bíllinn keyrir og flautar „bíbb, bíbb“. Þá er þetta orð/hljóð endurtekið í leik með barninu og það hvatt til að herma eftir því. Einnig er hægt að nota glaðlegan eða syngjandi raddblæ til að hvetja til eftirhermu.

Sjálftal – Talað er um allt sem fyrir augu ber með því að hinn fullorðni setur orð á allar hversdagslegar athafnir, eins og því sem gerist eða það sem heyrist. Dæmi um þetta gæti verið „Núna set ég húfu á höfuðið þitt“ eða „Nú ætla ég að fara í jakkann minn áður en við förum út“.

Samhliðatal – Hinn fullorðni talar um það sem barnið gerir, nefnir leikföng þess, nefnir það sem barnið gerir í leiknum sínum, hvernig því líður, hvað það heyrir o.s.frv. td. „Ég sé að þú kastar boltanum hátt upp í loftið“.

Lýsingar – Hinn fullorðni lýsir því sem hann og barnið sjá, eins og  „Sjáðu þarna er hundur. Hann er svartur“. Þetta hvetur til sameiginlegrar athygli þar sem barnið og hinn fullorðni deila saman reynslu, horfa á sameiginlegan hlut og hafa áhuga á viðbrögðum hvors annars.

Endurtekning – Þegar barnið sýnir frumkvæði að samskiptum (td. með bendingum) eða segir orð er mikilvægt að endurtaka þau og bæta við upplýsingum. Ný orð eru endurtekin til að festa þau í minni barnsins, gott að segja sömu setningar aftur og aftur „Nú förum við út… út, út, út… förum út að leika“.

Útvíkkun – Hinn fullorðni bætir viðbótarupplýsingum við það sem barnið segir. Ef barnið segir „epli“ þá er hægt að bæta við “já, þetta er epli, þetta er rautt epli, við ætlum að borða epli“.

Rétt mál – Orð og setningar barnsins  eru endurtekin rétt, án þess að vekja sérstaka athygli á þeirri villu sem barnið gerir. Barnið segir td. „voffi hlaupaði“ og hinn fullorðni endurtekur „já hundurinn hljóp hratt“.

Spurningar – Mikilvægt er að spyrja áhugavekjandi spurninga en ekki yfirheyra barnið. Yngri börn ráða frekar við já/nei spurningar en slíkar spurningar takmarkast þó aðeins við já/nei svör. Hægt er að bjóða barni valmöguleika „viltu leika með bolta eða bangsa?“ en þá bendir barnið á það sem það velur og hinn fullorðni nefnir svar barnsins ef barnið er ekki farið að segja orðið sjálft. Einnig er hægt að spyrja spurninga án þess að ætlast til þess að fá svar td. „hvað segir hundurinn? … Hundurinn segir voff, voff“. Þegar barn eldist fer það að ráða við opnari spurningar eins og „Hvað er…, Hvers vegna…, Hvernig…, Af hverju…?“.

Bókalestur – Lestur bóka er mikilvæg leið til að styrkja tengsl barns og fullorðins en að auki eflir bókalestur orðaforða og málskilning barns ásamt því að vera áhrifarík leið til að auka úthald og athygli sem og að efla rökhugsun og minni. Skynsamlegt er að hafa reglu á daglegri lestrarstund með barninu og virkja það með samræðu um efni bókarinnar. Lesa má sömu bækurnar aftur og aftur til að fá góða endurtekningu og nefna það sem er á myndunum. Miklu máli skiptir hvernig bókin er notuð. Gefa þarf góðan tíma fyrir samræður á meðan lestri stendur en þá þarf að staldra við, spyrja, hlusta, svara, útskýra og tryggja að barnið fái tækifæri til að tjá sína upplifun af bókinni. Bókalestur styður einnig við málskilning barnsins. Málskilningur eru þau orð sem barnið skilur en er kannski ekki farið að nota sjálft. Hægt er að biðja barnið að benda á tiltekna hluti „Hvar er…? Sýndu mér… Bentu á…“. Hér er ekki verið að krefja barnið um tal heldur að það skilji fyrirmæli og orð. Mikilvægt er að velja bækur við hæfi og sem vekja áhuga barnsins. Þegar lesið er fyrir mjög ung börn er hægt að lesa söguna út frá myndum bókarinnar en einnig hafa þau gaman af taktföstum hrynjanda í texta, vísum og þulum. Bækur sem innihalda ákveðin þemu, eins og um dýr eða mat, höfða einnig til ungra barna. Þegar barn byrjar að tala er hægt að velja bækur sem innihalda mikið af endurtekningu á einföldum orðum og stuttum setningum. Þegar leggja þarf áherslu á sérstakan málþátt eins og til dæmis eftirhermu er mikilvægt að velja bók sem styður við eftirhermu. Hægt er að fá ráðleggingar á bókasafni varðandi val á barnabókum. Oft vilja börn láta lesa sömu bækurnar aftur og aftur en þá er mikilvægt fyrir þann fullorðna að styðja við þann áhuga. Einnig er hægt að skiptast á að velja bók til að lesa og  kynna barninu þannig fyrir öðrum bókum.

Foreldrar eru besta málfyrirmynd barnsins og gegna lykilhlutverki þegar kemur að málörvun. Barn sýnir miklar framfarir í málþroska en þetta er ferli sem krefst hæfileika til að eiga í flóknum samskiptum við aðra þar sem það tjáir hugsanir, tilfinningar og hugmyndir sínar, meðtekur upplýsingar og nýtir í samræðum við aðra. Barnið lærir grundvallaratriði tungumálsins í samskiptum við aðra og því er mikilvægt að það fái örvun og mörg tækifæri til þess.

Margrét Guðmundsdóttir
Talmeinafræðingur
Skólaþjónusta Árborgar

Nýjar fréttir