Er ekki tilvalið að bregða undir sig betri fætinum og fara í leikhús í Hveragerði á gullfallega og skemmtilega sýningu um Benedikt búálf?
Leikritið fjallar um Dídí, 7 ára stúlku og Benedikt búálf og ævintýri þeirra í Álfheimum, þar sem Dídí kynnist mörgum skemmtilegum álfum og einum ógurlegum dreka. Verkið hefst á því að Dídí mannabarn rekur augun í Benedikt, þar sem hann stendur með handklæði um sig miðjan, á baðherberginu hennar, nýkominn úr baði. Búálfar eru nefninlega aðeins sýnilegir mannabörnum þegar þeir eru blautir! Örlög búálfa eru með þeim ósköpum að þegar þeir lenda í þeim hremmingum að verða mannabörnum sýnilegir, fá mannabörnin að ráða hvað verður um þá. Benedikt og Dídi verða góðir vinir og lenda í miklum ævintýrum og mikilli hættu í Álfheimum en allt fer þó vel að lokum.
Leikstjóri sýningarinnar er Gunnar Gunnsteinsson, danshöfundar eru Maria Araceli og Baldvin Alan Torarensen.Frumsýning var laugardaginn 24. sept og hafa síðan verið sýndar 20 sýningar fyrir fullu húsi.Sýningar hefjast aftur nú eftir jólafrí laugardaginn 14. janúar.
Leikfélag Hveragerðis varð 75 ára í fyrra, en félagið var stofnað 23 febrúar 1947. Af því tilefni var ákveðið að setja upp ævintýrið um Benedikt, búálfinn geðþekka og ævintýri hans. Leikritið er unnið upp úr fyrstu bókinni um Benedikt, höfundur er Ólafur Gunnar Guðlaugsson, tónlistina samdi Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson en söngtextana sömdu þau Andrea Gylfadóttir og Karl Ágúst Úlfsson. Sýnt er í Leikhúsinu Í Hveragerði að Austurmörk 23 og hefjast sýningar kl. 14.00
„Af hverju ekki að taka daginn snemma með börnunum eða barnabörnunum, fara í leikhúsferð til Hveragerðis og fara í sund eða göngutúr í fallegu og skemmtilegu umhverfi. Eftir það eru eflaust margir orðnir svangir og þá er tilvalið að fá sér hádegissnæðing í Mathöll Suðurlands (Gróðurhúsinu) eða öllum hinum góðu veitingarstöðum í Hveragerði,“ segir Valdimar Ingi, formaður Leikfélags Hveragerðis og færir okkur þessa fínu uppskrift af góðum fjölskyldudegi í ljúfa Hveragerði.
Miðasala fer fram á tix.is.
Nánari upplýsingar má finna á Facebooksíðu Leikfélagsins.