-1.1 C
Selfoss

Vangaveltur um mannlegt eðli og hnyttinn texti heilla mig

…segir lestrarhesturinn Helga Þorbergsdóttir

Helga Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur í Vík í Mýrdal er fædd árið 1959. Hún sleit barnsskónum í Bolungavík og æskuárin bjó hún á höfuðborgarsvæðinu. Auk hjúkrunar- og sjúkraflutninganáms hefur Helga meðal annars lagt stund á heilsuhagfræði, heimspeki og starfstengda siðfræði. Hún er gift Sigurgeiri Má Jenssyni lækni og eiga þau 4 börn og 10 barnabörn. Sigurgeir og Helga hafa unnið á Heilsugæslustöðinni í Vík í tæp 40 ár. Auk starfa sinna þar hefur Helga setið í sveitarstjórn og tekið þátt í fjölbreyttu samfélagsstarfi. Hún hefur ásamt eiginmanni sínum stundað skógrækt í Mýrdal og uppsveitum Árnessýslu.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Nýlega kom út mikil merkisbók Lifað með öldinni. Vinkona mín Salvör Nordal gaf mér bókina og hef ég að undaförnu verið að lesa hana. Þetta er aldarspegill þar sem Jóhannes Nordal fyrrverandi seðlabankastjóri rekur sína sögu og samtímans á áhrifamikinn hátt. Þegar kemur að vörðum á seinni hluta tuttugustu aldar fer ég að kannast vel við umfjöllunarefnin og það er gaman að skyggnast á bak við tjöldin. Á borðinu mínu var skáldsagan Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson hálflesin þegar ég fór að glugga í aldarspegil Jóhannesar. Sú bók kom út 2020 og las ég hana þá og það er gott að lesa hana aftur. Bækur Ólafs höfða til mín og spila skemmtilega á tilfinningar og huga.

Hverskonar bækur höfða helst til þín

Ég les allskonar bækur. Sumar les ég hratt en aðrar hægar. Bækur sem hreyfa við mér höfða til mín, hvort sem um er að ræða skáldsögur, ljóð eða fræðibækur. Vangaveltur um mannlegt eðli og hnyttinn texti heilla mig. Dæmi um bók sem hreyfði við mér er 1984 eftir George Orwell sem ég las fyrir margt löngu í heimspekiáfanga. Bókin var skrifuð 1948 en tölum í ártali er víxlað og ógnvænleg framtíðarsýn birtist. Sýn Orwells talar enn til samtímans. Stóri bróðir fylgist með og menn eru stöðugt í stríði. Sigurvegararnir endurskrifa söguna þannig að engin leið er að festa hönd á staðreyndum. Um hver jól berast margar skáldsögur íslenskra höfunda inn á heimilið. Stórfjölskyldan hittist og við skiptumst á bókum.

Fékkstu lestraruppeldi?

Ég sleit barnsskónum í Bolungavík í faðmi stórfjölskyldu, sjónvarpið kom seint vestur og bóklestur var almennur. Föðurafi minn hafði gaman af að kenna mér langar sagnaþulur sem gengið höfðu í munnmælum. Þetta þuldi ég og sá fyrir mér mannskapinn sem fjallað var um. Ég varð snemma læs og elskaði að lesa. Ég lifði mig inn í líf söguhetjanna og tók þátt í ævintýrum þeirra, sorgum og gleði, mín veröld hvarf og ég ferðaðist víða. Ég man eftir mér ungri líklega 5 ára með Dísu ljósálf, dvergurinn Rauðgrani og Alfinnur álfakóngur voru á kantinum. Ég sé bókina fyrir mér, byrjaði á blaðsíðu þrjú og svo þegar ég fletti varlega blasti við mynd þar sem vængirnir voru  klipptir af Dísu. Ég fann til og grét. Það var mikið til af bókum á heimilinu og ég fékk bækur í afmælis- og jólagjafir. Ég gleypti þær allar í mig og ekki síður fannst mér varið í bækur sem eldri bróðir minn fékk í sínum pökkum. Anna í Grænuhlíð og Pollýanna voru í uppáhaldi. Þær bækur voru í gömlu bandi frá bernsku mömmu. Bækur Enid Blyton svöluðu ævintýraþrá heimasætunnar í Miðstræti 14.

Krakkar sem leystu ráðgátur og fólk á ferð og flugi voru hetjurnar. Nancy Drew, Rósa Bennett, Kim og Frank og Jói. Þetta þróaðist svo yfir í ástarsögur og Alistair McLean og félaga. Ég var fastagestur á bókasafninu í Bolungavík og reyndi snemma að seilast í bækur sem bókavörðurinn sagðist ekki viss um að væru barnabækur. Ég flutti 13 ára í Kópavog og það voru talsverð umskipti. Þá sökkti ég mér í lestur og hvarf á vit ævintýra og stundum þyngri vangaveltna.

Í neðstu bókahillunni á skrifstofu pabba voru óinnbundnar bækur. Ég leitaði  þarna inn og dró af handahófi út bók og las. Þarna man ég eftir að hafa gluggað í Speki stóu og kristni. Þessi fræði og hin stóíska ró komu seinna til mín ljóslifandi í heimspekitíma hjá Páli Skúlasyni. Önnur kilja sem ég greip úr skápnum var eftir Stefan Zweig með formála um ævi og ævilok höfundar og sú frásögn kallaði fram þyngsli í brjósti unglingsins. Þarna var að finna söguna Manntafl. Mér fannst hún mögnuð.

Hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Frá því ég var barn hef ég haft bækur á náttborðinu og lesið fyrir svefninn. Undanfarin ár hef ég vaknað kl. 05:40 og skellt mér í sund. Þetta þýðir að ég er varla lögst á koddann þegar ég er sofnuð. Ég sæti lagi og les þegar færi gefst. Bók Kristínar Marju Baldursdóttur Karitas án titils las ég að sumri til ein í litlum árabáti eldsnemma morguns úti á miðju Botnlangalóni. Ég er ekki áskrifandi að Storytel, en ég er með Blinkist sem er fyrirbrigði sem ég nota allnokkuð. Hef þetta stundum í eyrunum í göngutúrum. Þarna taka menn hinar ýmsu fræðibækur og setja þær fram í stuttum greinum. Síðustu bækurnar sem ég hlustaði á voru The story of Philosophy, the miracle of mindfullness og lifespan, why we age.

Hefur bók einhverntíma rænt þig svefni?

Ég hef oft vakað fram undir morgun til að klára góða bók.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Sú upptalning yrði bæði breytileg og löng. Höfundar sem hreyfa við mér með skrifum sínum heilla mig.

En að lokum Helga, hvernig bók myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég myndi skrifa sögulega skáldsögu.

_______________________________________________________

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason – jonozur@gmail.com

Fleiri myndbönd