-3.1 C
Selfoss

Meira jafnræði og gagnsæi í styrkjum til stjórnmálasamtaka

Á fundi bæjarstjórnar í Hveragerði þann 24. nóvember sl. voru samþykktar nýjar reglur um styrki til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum í bænum. Sveitarfélögum er skylt að veita slíka styrki lögum samkvæmt en sveitarstjórnum falið að útfæra þá. Í gildi höfðu verið reglur síðan 2017 þar sem styrkir til stjórnmálasamtaka voru þrenns konar, þ.e. beinn fjárstyrkur, kaup á auglýsingu í blöð stjórnmálasamtaka og niðurfelld fasteignagjöld til stjórnmálasamtaka sem áttu fasteignir.

Nýjar reglur

Nýjar reglur eru til að auka jafnræði og gagnsæi í fjárframlögum til stjórnmálasamtaka og taka mið af viðmiðunarreglum sem Samband íslenskra sveitarfélaga setti um slík framlög árið 2019. Meginbreytingin frá eldri reglum er að hætt er að fella niður fasteignagjöld til húsnæðis sem stjórnmálasamtök eiga. Með þessu er aukið jafnræði í styrkjum til stjórnmálasamtaka og þeim ekki mismunað eftir því hvort að þau eiga fasteign eða kjósa að leigja húsnæði undir starfsemi sína til lengri eða skemmri tíma. Í nýjum reglum er beinn fjárstuðningur hækkaður er það því val stjórnmálasamtaka hvort að þau noti styrkinn til að greiða niður fasteignagjöld og annan rekstrarkostnað af fasteign sem þau eiga eða leigja húsnæði. Í eldri reglum var enginn styrkur til leigu á húsnæði hjá þeim sem ekki áttu fasteign.

Sjálfstæðisflokkurinn á móti

Nýjar reglur um styrki til stjórnmálasamtaka voru samþykktar með meirihluta atkvæða bæjarfulltrúa Okkar Hveragerðis og Framsóknar en Sjálfstæðisflokkurinn kaus á móti reglunum. Í umræðu í bæjarstjórn og í bókun um málið kom fram að Sjálfstæðisflokknum fannst sér vera mismunað með þessum nýju reglum en flokkurinn hefur undanfarin ár fengið niðurfelld fasteignagjöld af eign sinni. Í umræðum bar Sjálfstæðisflokkurinn saman styrki til stjórnmálasamtaka og þjónustusamninga sem Hveragerðisbær hefur gert við frjáls félagasamtök í bænum. Þar er þó verið að bera saman epli og appelsínur. Fjárframlög sem Hveragerðisbær veitir til frjálsra félagasamtaka (t.d. Hamars, leikfélagsins, hjálparsveitarinnar, golfklúbbsins o.s.frv.) er á grundvelli sérstaks þjónustusamnings sem er gerður á milli aðila. Í þeim samningum er kveðið á um framlög Hveragerðisbæjar til viðkomandi félaga sem á móti sinna tiltekinni þjónustu til íbúa og/eða sveitarfélagsins. Dæmi um slíkt er þátttaka í viðburðum á vegum bæjarins, t.d. þátttöku Hestamannafélagsins Ljúfs og Skátafélagsins Stróks í viðburðum á 17. júní og leikfélagsins í fjölskylduskemmtun við tendrun á jólatré bæjarins. Hjá þeim félagasamtökum sem eiga húsnæði hefur hluti styrksins verið að Hveragerðisbær greiðir fasteignagjöld þeirra. Styrkir til stjórnmálasamtaka er lögbundinn og í þeim er því ekki kveðið á um að þau eigi að veita tiltekna þjónustu. Þetta er sem sagt tvennt ólíkt, annars vegar lögbundinn styrkur og hins vegar framlag á grundvelli þjónustusamnings.

Heildarlækkun styrkja og engin mismunun lengur

Með nýjum reglum lækkar heildarupphæð framlaga Hveragerðisbæjar til stjórnmálasamtaka að meðaltali um 8% frá því sem var. Þá er stjórnmálasamtökum ekki lengur mismunað í styrkveitingum eftir því hvort að þau eiga fasteign eða ekki en í eldri styrkreglum fengu þau stjórnmálasamtök sem áttu fasteignir hærri styrk frá Hveragerðisbæ sem nam niðurfellingu fasteignagjalda. Til fróðleiks er hér birt tafla sem sýnir muninn á styrkjum til stjórnmálasamtaka skv. nýjum og eldri reglum og hvernig þessir styrkir dreifast á þau stjórnmálasamtök sem nú eiga fulltrúa í bæjarstjórn. Rétt er að taka fram að samkvæmt lögum dreifst beinn fjárstyrkur til stjórnmálasamtaka samkvæmt úrslitum kosninga.

Njörður Sigurðsson,
bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis

Nýjar fréttir