1.1 C
Selfoss

Útlit fyrir slæmt ferðaveður á gamlársdag

Þau sem eiga eftir að útrétta fyrir áramótin ættu að nýta daginn í dag til þess. Líkur eru snjóbyl með skafrenningi aðfaranótt og að morgni gamlársdags á suðvesturhorni landsins og ekki gott að vera á ferðinni. Búast má við að færð á vegum verði þung og jafnvel komi til lokana. Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast vel með færð og veðri á umferdin.is ef ætlunin er að aka milli landshluta.

Ófært gæti orðið að morgni gamlársdags á suðvesturhorni landsins, Suðurlandi og á Vestfjörðum ef veðurspá gengur eftir. Klukkan sex að morgni gamlársdags gera spár ráð fyrir suðaustanátt, um 10 m/s, og snjókomu á höfuðborgarsvæðinu. Mestur verður vindurinn í efri byggðum um morguninn og ófærðin mun ráðast mest af styrk vindsins. Ófærð er líkleg á höfuðborgarsvæðinu bæði í húsagötum og stofngötum.

Líkur eru á slæmu ferðaveðri á gamlársdag en vegfarendur sem hyggja á ferðalög þurfa að fylgjast vel með upplýsingum á umferdin.is. Töluverðar líkur eru á að vegir verði illfærir eða ófærir allt frá Reykjanesi og austur að Vík.

Veðrið að kvöldi gamlársdags er enn óráðið en hugsanlega hvessir aftur með éljum og snjókomu þegar líður á daginn eða um kvöldið.

Vetrarþjónusta hjá Vegagerðinni er með hefðbundnu sniði eins og um helgi væri að ræða, bæði gamlársdag og nýársdag.

Á gamlársdag verður umferðarþjónustan í síma 1777 opin frá klukkan 6.30 til 22:00.

Á nýársdag verður umferðarþjónustan í síma 1777 opin frá klukkan 7:30 til 22:00.

Sólarhringsvakt er á vaktstöðvum Vegagerðarinnar alla daga ársins.

Fylgist vel með á umferdin.is

Fréttatilkynning frá Vegagerðinni.

Fleiri myndbönd