-6.3 C
Selfoss

Kartöflukanilkaka með rjómaostakremi

Hér kemur uppskrift sem var ein af þremur framlögum Flóaskóla í Eftirréttakeppni
grunnskólanna, en þær Ásdís Eva Magnúsdóttir, Júlía Kolka Martinsdóttir, Svandís Aitken Sævarsdóttir og Þórunn Eva Ingvarsdóttir, nemendur í 10 bekk Flóaskóla, gerðu sér lítið fyrir og sigruðu keppnina nú í nóvembermánuði. Það gerðu þær undir handleiðslu Iðunnar Ýrar Ásgeirsdóttur heimilisfræðikennara. Hvort það hafi verið kartöflurnar úr Flóanum sem gerðu gæfumuninn þegar kom að því að heilla dómnefndina fáum við aldrei að vita en þær hljóta að hafa haft sitt að segja.

Til að fanga jólaandann við baksturinn á þessari girnilegu og frumlegu Kartöflukanilköku vilja Ásdís, Júlía, Svandís og Þórunn mæla með því að bakarar dilli sér við All I want for christmas is you með Mariah Carey, Snjókorn falla með Ladda, Snowman með Sia, Nú mega jólin koma fyrir mér með Memfismafíunni og Sigurði Guðmundssyni og tónlistinni úr fyrstu Home alone myndinni.

Kartöflukanilkaka með rjómaostakremi

4 egg
100 g sykur
100 g  púðursykur
1 tsk vanilla
300 g  rifnar hráar kartöflur (rauðar íslenskar og gjarnan úr Flóanum)
240 g hveiti
2 tsk matarsódi
½ tsk salt
½ msk kanill
½ msk brúnkökukrydd
2 ½ dl matarolía

Rjómaostakrem:

400g rjómaostur
½ dós sýrður rjómi
80 g flórsykur
1 tsk. vanillusykur

Aðferð:

Þeytið saman egg, sykur, púðursykur og vanilludropa í hrærivél þar til blandan verður létt og ljós. Rífið kartöflurnar og blandið saman við, sigtið saman hveiti, matarsóda, salt, kanil, brúnkökukrydd og látið útí ásamt matarolíu. Bakað í 2 smurðum formum við 175° í ½ klst.

Krem:

Hrærið rjómaostinn í hrærivél þar til hann er mjúkur og sléttur. Hrærið sýrðan rjóma útí ásamt flórsykri og vanillusykri. Hrærið þar til kremið verður létt. Setjið kremið á milli botnana og ofan á kökuna, eða berið fram með kökunni.

Þessi kaka er mjög mjúk og er góð í viku frá því hún er gerð. Gott er að hafa ýmist hindber, jarðarber, bláber, kókosflögur eða ristaðar hnetuflögur ofan á henni.

Fleiri myndbönd