-0.5 C
Selfoss

Mannamót – styrkir tengsl og eykur þekkingu

Árið 2023 byrjar með trompi hjá Markaðsstofu Suðurlands en fimmtudaginn 19. janúar verða haldin Mannamót Markaðsstofa landshlutanna í Kórnum í Kópavogi. Mannamót hefur verið fjölmennasti viðburðurinn  í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin ár en þar hafa hátt í þúsund gestir mætt og sýnendur verið yfir 250. Sunnlensk ferðaþjónusta hefur verið áberandi og hafa rótgróin fyrirtæki sem og þau sem eru að stíga sín fyrstu skref, og öll flóran þar á milli, mætt og sagt frá þjónustu sinni og vöruúrvali.

Við hjá Markaðsstofum landshlutana teljum og vitum að mikilvægt er að halda góðum tengslum við aðra í ferðaþjónustu, bæði innan okkar svæðis og utan þess. Mannamót eru því frábært tækifæri fyrir ferðþjónustuaðila til sjá hvað aðrir eru að gera, kynna sér nýjungar og fá innblástur að góðum hugmyndum.

Á Mannamótum eru ferðaþjónustuaðilar hvattir til að leggja áherslu á það sem er í boði yfir vetrartímann og vekja áhuga og þekkingu ferðaskrifstofa á því vöruúrvali og tækifærum í þjónustu og upplifun gesta sem felast í tímabilinu.

Markmið Mannamóta er að gera ferðaþjónustunni á landsbyggðinni auðveldara fyrir að kynna þjónustu sína fyrir fólki í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Á viðburðinum gefst einstakt tækifæri til að hitta fólk frá öllum landshlutum og skapa vonandi góð viðskiptasambönd sem skila ferðamönnum allan ársins hring.

Innlendir ferðasöluaðilar eru fjölmennasti hópur gesta Mannamóta en þess má geta að áhugi erlendra ferðasöluaðila hefur aukist á hverju ári og eru reynslumeiri endursöluaðilar að verða fastagestir á viðburðinum.

Við hvetjum öll okkar samstarfsfyrirtæki til þess að skrá sig á Mannamót og sýna öðrum að við erum meira en tilbúin til að taka á móti gestum, segja þeim okkar sögu og sýna þeim hvers vegna við erum stolt af okkar svæði, náttúru og því sem ferðaþjónustan býður upp á.

Samstarfsfyrirtækjum Markaðsstofu Suðurlands gefst kostur á að skrá sig á Mannamót og ég hvet þau öll að skrá sig í dag og taka þátt í þessum skemmtilega degi. Nánari upplýsingar má finna á www.markadsstofur.is

Bestu hátíðarkveðjur
Ragnhildur Sveinbjarnardóttir
Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands

Fleiri myndbönd