-1.1 C
Selfoss

Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands

Það var sérlega ánægjulegt að hlýða á jólatónleika Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands þann 10. desember í Selfosskirkju. Þar mátti heyra leik sinfóníuhljómsveitarinnar undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, ásamt söng þriggja kóra Selfosskirkju (barna-, unglinga- og kirkjukórs) og einsöngvaranna Eyjólfs Eyjólfssonar og Hallveigar Rúnarsdóttur. Flutningur var vandaður og fagmennska og orka skein alls staðar í gegn. Á dagskrá voru jólalög úr ýmsum áttum, fjöldi þeirra í nýjum útsetningum Guðmundar Óla.

„Það var með miklu stolti sem ég hlýddi á tónleikana og ekki af ástæðulausu, því stjórnandi hljómsveitarinnar, kórstjórarnir Edit og Kolbrún og helmingur hljófæraleikaranna eru kennarar og nemendur við Tónlistarskóla Árnesinga. Aðrir flytjendur komu víða að af Suðurlandi, allt frá Höfn í Hornafirði til höfuðborgarsvæðisins og lögðu því á sig talsverð ferðalög til að mæta á æfingar og tónleika. Takk Guðmundur Óli og Margrét Blöndal fyrir að ýta Sinfóníuhljómsveit Suðurlands úr vör og beisla með því þann mikla mannauð sem býr í sunnlensku tónlistarfólki! Stofnun hljómsveitarinnar er gríðarleg lyftistöng fyrir menningarlíf á Suðurlandi, eykur fjölbreytni í tónlistarflórunni bæði fyrir flytjendur og áheyrendur og gerir starf tónlistarskólanna enn sýnilegra,“ sagði Helga Sighvatsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga.

Fleiri myndbönd