-10.3 C
Selfoss

Gróðurhúsið fagnar eins árs afmæli

Gróðurhúsið í Hveragerði fagnar eins árs afmæli núna í desember. Í Gróðurhúsinu kennir ýmissa grasa en auk þess að hýsa glæsilegt hótel og nýju rakarastofuna „Lord Rakari“, er þar að finna mathöll með veitingastöðunum Hipstur, Taco Vagninn, Punked Fried Chicken, Yuzu borgara og Wok-on, Nýlendubar Kormáks og Skjaldar, Ísbúðina Bongó, Kaffihús og verslanirnar Epal, Kormák og Skjöld, Me og Mu og Rammagerðina sem eru opnar allan sólarhringinn.

Gróðurhúsið opnaði rétt fyrir jólin á síðasta ári og þá í miðju Covid fári sem er óhætt að segja að hafi valdið eigendum töluverðum áhyggjum, enda búið að leggja mikla fjárfestingu í verkefnið og nánast engir útlendingar á landinu. En viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum og þar voru íslendingar í fararbroddi sem tóku staðnum opnum ormum og voru duglegir að nýta sér þær vörur og þjónustu sem staðurinn hefur upp á bjóða svo sem mathöllina og verslanirnar.

Þrátt fyrir Covid var hótelherbergjanýting góð fyrstu mánuðina þó að að erlendir ferðamenn væru sjaldséðir. Það var svo sumarið 2022 sem þeir tóku að streyma til landsins og samsetning gesta hótelsins breyttist umtalsvert. Sumarið var gífurlega gott og herbergjanýting var vel yfir 90% sem voru mestmegnis erlendir ferðamenn. Haustið hefur skapað meira jafnvægi á milli erlendra ferðamanna og íslendinga, sem vilja gera sér dagamun í skammdeginu.

Gróðurhúsið hefur ávallt lagt mikla áherslu á sjálfbærni og er í vottunarerli fyrir BREEAM vottun, sem er eitt víðtækasta og þekktasta vistvottunarkerfi fyrir byggingar í heiminum í dag. Mikil áhersla er því lögð á að stjórnun og rekstur hótelsins sé eins vistvænn og frekast er unnt.

Í tilefni afmælisins hefur Gróðurhúsið verið að bjóða upp á sérstök afmælistilboð á gjafabréfum í gistingu. Þá er einnig boðið upp á sérstakan jólamatseðil í mathöll Gróðurhússins auk þess sem sérstök jóladagskrá er allar helgar í desember. Þá hefur Gróðurhúsið hafið samstarf við 3. flokk Hamars í knattspyrnu sem sjá um jólatrésölu allar helgar í desember.

Valgarð Sörensen og Brynjólfur Baldursson, eigendur Gróðurhússins.

Á árs afmælinu bætir Gróðurhúsið enn vöruúrvalið sitt og núna í desember bætist Rammagerðin við með 66N vörur inn í verslunarhlutann. Þetta er í fyrsta skipti sem verslun með 66N vörur opnar í Hveragerði og nágrenni. Þá hefur rakarastofan „Lord Rakari“ einnig komið sér fyrir í Gróðurhúsinu og býður upp á hár- og skeggsnyrtingu í einstaklega skemmtilegu umhverfi og er án efa eina rakarastofan í heiminum sem hefur aðsetur í Gróðurhúsi.

Fleiri myndbönd