1.7 C
Selfoss

Kveðja á aðventu

Eitt af mínum eftirlætis jólalögum er Hin fyrstu jól, lag Ingibjargar Þorbergs við kvæði Kristjáns frá Djúpalæk. Kannski er ástæðan fyrir dálæti mínu á þessu lagi sú að það færir fæðingu Krists svo nærri lífi mínu sem stráks í sveitinni. Lágstemmd lýsing og næstum hversdagsleg.

Og stjarna skín gegn um skýjahjúp
með skærum lýsandi bjarma
og inn í fjárhúsið birtan berst
og barnið réttir út arma
en móðirin sælasti svanni heims
hún sefur með bros um hvarma.

Já, það er ekki laust við það að maður verði svolítið meyr þegar líður að jólum. Árið á sínum síðustu metrum og enn bætist í hóp barnabarnanna. Það er margt sem maður má vera þakklátur fyrir.

Mikilvægi húsnæðsmála

Verkefnin sem nýtt ráðuneyti innviða eru viðamikil og mikilvæg. Samgöngumál, byggðamál, sveitarstjórnarmál, skipulagsmál og húsnæðismál eru öll á könnu ráðuneytisins og mikill gangur á öllum sviðum. Húsnæðismálin hafa verið í brennideplinum síðustu misserin enda eru þau ekki aðeins gríðarlegt lífsgæðamál fyrir fjölskyldur heldur einnig stórt efnahagsmál sem hefur áhrif langt út fyrir þenslusvæðin.

Búsetufrelsi

Í vinnu ráðuneytisins höfum lagt mikla áherslu á búsetufrelsi. Í því felst að þjónusta hins opinbera þarf að vera aðgengileg öllum, hvar sem þeir búa á landinu. Hamingja fólks er ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs. Búsetufrelsi ýtir undir fjölbreytileika byggðanna.

Lífsgæði og samgöngur

Við sjáum allt land miklar framkvæmdir þegar kemur að samgöngum. Við gerum okkur líka öll grein fyrir því að samgöngur eru lífæð byggðanna og mikilvæg tenging fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Mér hefur þótt mikilvægt að líta ekki aðeins á samgöngur með mælikvarðana í kílómetrum heldur horfa á þau lífsgæði sem fylgja betri og öruggari samgöngum.

Tækifæri framtíðarinnar

Við lifum á tímum mikilla breytinga. Síðustu árin hafa breytingar á loftslagi verið eitt helsta umræðuefni á sviði stjórnmálanna í heiminum. Við hér á Íslandi erum svo lánsöm að vera komin mjög langt þegar kemur að lausn þessa vanda. Getum að mörgu leyti verið fyrirmynd annarra þjóða enda áður búin að ganga í gegnum orkuskipti með hitaveituvæðingu landsins og síðar rafvæðingu.

Við erum líka svo heppin að hafa mikla reynslu af því að framleiða græna orku með afli jarðhita og fallvatna. Loftslagsbreytingar hafa knúið áfram þróun frá notkun jarðefnaeldsneytis til annarra orkukosta. Við verðum að hætta að tala og byrja að gera. Staða Íslands er einstök að því leyti að við höfum á næstu árum tækifæri til þess að verða algjörlega sjálfbær hvað varðar orku. Við munum ef rétt er á haldið ná fullkomnu orkusjálfstæði. Og orkusjálfstæði þýðir að við stöndum mun betur þegar kemur að fæðuöryggi. Því eins og staðan er í dag þá myndu ekki líða margar vikur frá því að síðasta olíusendingin kæmi til landsins og þangað til við myndum ekki geta framleitt matvæli vegna skorts á eldsneyti.

Kæri lesandi. Það er gott að geta á dimmasta tíma ársins notið samvista við fjölskyldu og vini og leitað í bjartar minningar. Brátt færist helgin yfir og henni fylgir líka hækkandi sól og bjartari tímar. Ég óska þér gleðilegrar hátíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson,
formaður Framsóknar og innviðaráðherra

Fleiri myndbönd