Senn líður að leiðarlokun hjá okkur í Handverki og hugviti undir Hamri í Hveragerði. Að öllum líkindum verður það í síðasta sinn sem jólaopnun verður hjá félaginu, þar sem fyrir hugað er að taka niður þetta fallega gamla hús og byggja við Grunnskólann í Hveragerði einhvern tímann á næstu misserum. Þetta er búið að vera yndislegur tími sem við félagar höfum haft í þessu fallega húsi, þar sem listamenn og handverksfólk hefur blómstrað og getað verið með opnar vinnustofur, haft sýningar á list- og handverki um nokkurra ára skeið og verið sýnilegt gestum og gangandi hér í listabænum Hveragerði eins og hann er stundum kallaður.
Hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi starfsemi félagsins er óljóst hvað muni taka við á næstu misserum, þar sem lítið eða ekkert húsnæði virðist vera á lausu fyrir slíka starfsemi eins og staðan er í dag. Þar af leiðandi mun listalíf ekki vera eins sýnilegt og það hefur verið undan farin ár hér í bæ. Við að sjálfsögðu vonumst eftir því að ný bæjarstjórn í Hveragerði sjái sér fært að finna félagastarfseminni annað heilsusamlegt húsnæði þar sem listir, hugvit og handverk fái notið sín, þar sem hægt er að halda námskeið og vera með fræðslu tengt handverki og listum.
Hrönn Waltersdóttir sem er ein af stofnendum félagsins mun hafa opið laugardaginn 10. des frá kl. 10 til 17 og sunnudaginn 11. des. frá kl. 13 til 17. Í gamla barnaskólanum (Egilsstöðum) við Skólamörk í Hveragerði. Þar verður til sölu handverk á sanngjörnu verði.
Boðið verður upp á léttar veitingar og allir hjartanlega velkomnir að líta inn.
Félagið þakkar öllu því yndislega fólki fyrir innlitið í gegnum árin og einnig öllum þeim sem hafa gefið okkur félagsmönnum tækifæri á að hafa húsnæðið til afnota og við fengið að vera sýnileg í bænum okkar Hveragerði.
Með innilegu þakklæti,
f.h. Handverks og hugvits
undir Hamri í Hveragerði,
Hrönn Waltersdóttir.