-11.6 C
Selfoss

Í kór eins og afi og pabbi

Vinsælast

Síðasta haust hóf Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem stofnaður var árið 1983, aftur upp raust sína undir stjórn Stefáns Þorleifssonar, eftir fjögurra ára þögn. Kórinn hélt sína fyrstu tónleika fyrir fullum sal Fjölbrautaskólans í liðinni viku, þar sem ekki var að heyra að hann væri jafn ungur og raun ber vitni. Augljóst er að kórinn er skipaður stórum hóp af hæfileikabúntum, enda tónleikarnir hinir glæsilegustu, hugljúfir og notalegir og skildu engan tónleikagest eftir ósnortinn.

Sú sem stendur að baki endurreisn kórsins er ung kjarnakona sem lætur verkin tala. Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir er 16 ára nýnemi við skólann og þrátt fyrir stutta skólagöngu er hún, auk þess að hafa sett kórinn á laggirnar með tilheyrandi vinnu, virkur meðlimur í nemendafélagi skólans, áhugaleikkona með mörg járn í eldinum, meðlimur í ungmennaráði Árborgar, starfsmaður í Bíóhúsinu, píanó-, bassa-, söng- „og allskonar“ hljóðfæranemi og formaður kórsins.

Mynd: Dagskráin/HGL

Dýrleif hefur brennandi áhuga á tónlist og hefur komið víða við í tónlistarheiminum síðan hún var 7 ára gömul. „Að syngja í kór var eitt af þeim atriðum sem ég hafði ekki komist í tæri við og hefur kórsöngur alltaf heillað mig. Mig grunar að kórblætið mitt komi úr föðurættinni þar sem að ég hef í mörg ár farið á tónleika hjá Karlakór Selfoss að sjá afa og pabba syngja. 

Þegar kom að því að velja framhaldsskóla þá var mér hugsað til ML og hins öfluga kórstarfs sem þar er í gangi. Ég velti fyrir mér af hverju það væri ekki kór í FSu þar sem hann væri svo fjölmennur skóli, en ég vissi að það væri hægt að gera góða hluti ef áhugi væri til staðar,“ segir Dýrleif.

Setti framhaldsskólakór á laggirnar áður en hún útskrifaðist úr grunnskóla

„Þannig að í 10. bekk setti ég mér það markmið að stofna kór í FSu, eða nánar tiltekið að endurvekja kórinn, því þegar ég kynnti mér málið betur, reyndist hafa verið starfræktur kór í skólanum fyrir nokkrum árum. Þann 17. mars sl. setti ég mig í samband við Olgu Lísu skólameistara og lagði fram beiðni um að kórinn yrði endurvakinn. Ég var þá búin að fá Stefán Þorleifsson, tónlistarkennarann minn, með mér í lið til að taka við hlutverki kórstjórnanda en Stefán hefur áður stýrt Kór FSu.

Það var svo ekki fyrr en 23. júní sem þetta var samþykkt en til að kórinn myndi verða að veruleika, þyrfti ég að vera með 18 þátttakendur skráða á haustönn. Og þá hófst leitin.

Ég sendi ótal skilaboð á vini mína og þau sem mér datt í hug að gætu haft áhuga á að vera í kórnum. Þegar kom að fyrstu æfingunni voru 15 manns sem létu sjá sig, þar á meðal einn strákur. Kórinn æfði vikulega á önninni, fólk var að byrja og hætta en fram að 4. október var hann ennþá í mótun,“ segir Dýrleif. 

„Eftir að hafa æft vel og samviskusamlega yfir önnina kom að því að halda tónleika. Það voru 34 nemendur sem stigu á svið, 27 stelpur og 7 strákar. Okkur tókst að fylla salinn og halda vel heppnaða tónleika. Efnisskráin var blanda af dægurlögum og aðventulögum og einsöngvarar úr röðum kórfélaga skreyttu tónleikana. Sérstakur gestur var Pelle Damby Carøe. Ég er ennþá í gleðivímu eftir tónleikana sem voru alveg einstök kvöldstund. Ég átti mjög erfitt með að halda andliti á meðan á þeim stóð vegna þess að ég var svo ótrúlega hrærð og ánægð með að kórinn hafi orðið að veruleika.

Ég er óendanlega þakklát meðlimum kórsins og Stebba sem hjálpuðu mér við að koma lífi aftur í Kór FSu. Það er alveg ótrúlega gaman að vera í kórnum og mikið hlegið á æfingum. Kórinn er ekki að fara neitt í bráð og ég vil hvetja alla nemendur skólans til að prófa að koma á æfingu hjá okkur,“ segir Dýrleif að lokum.

Nýjar fréttir