-10.3 C
Selfoss

Eldfjallaleið í þróun hjá Markaðsstofu Suðurlands og Markaðsstofu Reykjaness

Markaðsstofur Suðurlands og Reykjaness hafa tekið höndum saman um að setja á laggirnar ferðaleið um suðurströnd Íslands sem leggur áherslu á eldfjöll og eldvirkni á svæðinu.

Ferðaleiðin, sem ber vinnuheitið Eldfjallaleiðin (The Volcanic way), er ætluð sem verkfæri heimamanna til þess að leiða framþróun í ferðaþjónustu ásamt að draga fram núverandi innviði. Með því að stofna slíka ferðaleið sjáum við fyrir okkur að fá ferðamenn sem dvelja lengur og tengja betur við náttúru og samfélag.

„Nákvæmlega hvernig skal ferðast þessa leið, með hvaða áföngum og lykil aðdráttarafli, er nokkuð sem við ætlum að skoða í sameiningu á vinnustofum sem fara fram á næstu vikum. Eldvirkni er nokkuð sem greinir þessa landshluta frá öðrum, og þema sem ferðaþjónustuaðilar á þessu svæði geta tengt sig við á einhvern hátt,“ Segir Vala Hauksdóttir sem er annar verkefnastjóra ferðaleiðarinnar og bætir við að leiðin sé ný ferðaleið sem fylgir ströndinni frá Reykjanesbæ til Hafnar í Hornafirði.

Vill lengja dvöl ferðamanna á svæðinu

Vala segir að við vinnslu áfangastaðaáætlunar Suðurlands hafi verið mikið ákall á aðgerðir sem laða að ferðamenn sem bera virðingu fyrir náttúru og samfélagi, og dvelja lengur. Markmið Eldfjallaleiðarinnar sé að lengja dvöl ferðamanna á þessu svæði sem hingað til hefur einkennst af nokkuð hröðum túrisma. Þetta verður gert með því að draga fram þá þjónustu og staði sem við höfum nú þegar, og greina tækifæri á nýsköpun og uppbyggingu sem höfðar til þessara ferðamanna.

„Eldfjallaleiðin er fyrir fólk sem vill merkingarríka upplifun. Fólk sem vill upplifa og skynja náttúru og menningu frekar en að þjóta um landið og smella af sér sjálfsmyndum. Ef þú vilt njóta matar úr héraði, heyra sögur af landi og þjóð og velja gæða þjónustu og vörur, þá er Eldfjallaleiðin fyrir þig.“

Ferðaleiðin mótuð af íbúum svæðana

Það er í mörg horn að líta þegar svona ferðaleið er unnin og er sú vinna þríþætt í raun. „Fyrst þurfum við að skilgreina hvað Eldfjallaleiðin er. Hver eru okkar gildi og að hvernig ferðaþjónustu viljum við stuðla?“ segir Vala.

Á næstu dögum fara fram opnar vinnustofur á Reykjanesi og um vítt Suðurland þar sem Eldfjallaleiðin verður færð af hugmyndastigi yfir á hönnunarstig.

Starfandi ferðaþjónustuaðilar, sveitarstjórnarfólk og aðrir áhugasamir íbúar eru sérstaklega hvattir til að sækja vinnustofurnar. Vala leggur áherslu á að þetta sé tækifæri til að til að móta í sameiningu hvernig ferðaþjónustu við viljum hafa í okkar nærumhverfi.

„Þegar við höfum sammælst um hver við erum og hvaða sögu við viljum segja, þá fyrst getum við farið í næsta fasa: Að segja heiminum frá. Miðla Eldfjallaleiðinni og gera fólki úti í heimi kleift að skipuleggja sína ferð um Eldfjallaleiðina. Síðasti þátturinn felst svo í að uppfylla þær væntingar sem við höfum skapað með Eldfjallaleiðinni og þess vegna er samvinna við nærsamfélagið órjúfanlegur hluti af þessari skilgreiningarvinnu“

Þegar Vala er spurð hvernig hennar draumaferð um eldfjallaleiðina hljómar er augljóst að um er að ræða spennandi valkost fyrir ferðafólk á öllum aldri.

„Leiðin er enn á hugmyndastigi og í höndum þeirra sem mæta á vinnustofurnar að skilgreina nánar hvernig er best að upplifa Eldfjallaleiðina. Ef ég ætti að ferðast leiðina í dag myndi ég taka með mér manninn minn og börnin. Taka bílaleigubíl í Keflavík og dvelja á Reykjanesi tvo, þrjá daga til að skoða alla einstöku staðina sem svo fáir virðast vita af. Næst myndi ég upplifa jarðhitann í kring um Hengilssvæðið, baða mig í Reykjadal eða fara í hellaferð. Ég myndi nota hvert tækifæri til að kíkja inn á söfn og sýningar á leiðinni svo ég þyrfti líklega tvo þrjá daga á milli Hveragerðis og Hvolsvallar. Áður en ég héldi lengra austur myndi ég gista í Vestmannaeyjum. Næst tækju við nokkrir dagar í Kötlu UNESCO jarðvangi þar sem ég myndi skoða fossa og fjörur og upplifa náttúruna með lókal afþreyingarfyrirtæki. Næst tæki Vatnajökulsþjóðgarður við sem er á UNESCO heimsminjaskrá! Ef ég kæmi að sumri gæti ég farið í Ingólfshöfða en veturinn hefur sinn sjarma með íshella og jafnvel hreindýr ef heppnin væri með okkur. Á Höfn myndi ég svo slappa af í tvo þrjá daga, borða góðan mat og njóta mannlífsins. Svo yrði gaman að keyra til baka og upplifa það sem ég missti af á leiðinni, eflaust í öðru veðri og birtu.  Auðvitað gæti ég valið að halda áfram hringveginn eða fljúga til baka ef frídagarnir yrðu á þrotum. Má bjóða einhverjum með mér í þessa ferð?“

Vinnustofur vítt og breitt um Suðurland

Markaðsstofa Suðurlands stendur fyrir opnum vinnustofum á eftirfarandi stöðum:

Jarðhitasýningin í Hellisheiðarvirkjun 28.nóv. kl. 10:00-12:00
Kötlusetur, Vík 29.nóv. kl. 10:00-12:00
Lava Centre, Hvolsvelli 30.nóv. kl. 10:00-12:00
Hótel Skaftafell 7.des. 14:00-16:00
Hótel Höfn 8.des. 10:00-12:00
Reykjanes: Nánar auglýst síðar.

Skráning fer fram hér: https://www.south.is/is/skraning-a-vinnustofur-eldfjallaleidarinnar

Nýjar fréttir