Midgard Outfitters, stórglæsileg ný verslun með útivistar- og veiðivörur opnaði að Austurvegi 11 um síðustu helgi. Axel Ingi Viðarsson, Einar Valur Einarsson og Þórarinn Þór, eigendur Dýraríkisins eru eigendur verslunarinnar, en með blóði, svita og tárum hafa þeir komið upp þessari virkilega flottu verslun á besta stað í bænum á fáeinum vikum.
„Við byrjuðum með Veiðibúð Suðurlands árið 2020 í miðju covid. Við áttum laust hillupláss inni í Dýraríkinu og ákváðum að gera smá veiðihorn þar en við erum allir veiðimenn og áhugasamir um allt er viðkemur veiði. Við byrjuðum á að selja svona staðlaðar veiðivörur, kaststangir, eina og eina flugustöng, spúna og þetta allra helsta, bara til að prófa. Við fengum gamla afgreiðsluborðið frá Kalla úr, nýja nágranna okkar, sem hentaði mjög vel fyrir útstillingar á spúnum því það er með flottum glerhillum og smellpassaði í veiðihornið okkar. Síðan jókst eftirspurnin og í kjölfarið vöruúrvalið. Þetta gerðist mjög hratt og við ákváðum að stækka aðeins meira, svo meira og í leiðinni tókum við alltaf meira og meira pláss frá Dýraríkinu svo ákvörðun var tekin um að þetta yrði síðasta árið sem veiðibúðin fengi bústað í Dýraríkinu og að við myndum opna þessa útivistarverslun,“ segir Axel.
Allt fyrir útivistina
Axel segir það að selja einungis stangveiðivörur sé ekki arðbært allt árið um kring, enda sé veiðin árstíðabundin. „Svo til þess að gera þessa verslun að möguleika þurftum við að finna eitthvað annað á móti til þess að halda rekstrinum gangandi allan ársins hring. Við fórum í samstarf við Fjallakofann og erum t.d. að selja Caveman vörur sem er íslenskt fyrirtæki sem framleiðir skyrtur. Við erum með buxur frá Duer fyrir öll kyn, Scarpa útivistarskó og eigum eftir að bæta fleiri vörumerkjum í skóflokkinn, vöðlur, vöðluskó, vöðlujakka, hlýjar úlpur, léttari dúnúlpur og ýmislegt fleira. Svo eru á næstunni að bætast við vörur frá Kormáki og Skyldi en þar má sem dæmi nefna hið vinsæla Barbour vörumerki. Við stefnum svo bara á að halda okkar striki og leyfa versluninni að vaxa og þróast eftir eftirspurn, eins og hún gerði innan veggja Dýraríkisins. Þegar líður á vorið munum við færa út þennan vetrarfatnað sem við erum með núna og fylla verslunina af t.d. golfvörum og ýmsum árstíðabundnum göngu-, veiði- og útivistarvörum.“
Aðspurður hvort stefnt sé á að selja skotveiðivörur segir Axel að ekkert sé útilokað. „Það er möguleiki, það er bara þekking sem við höfum ekki, en ef við fáum einhvern inn sem hefur góða þekkingu á því sporti er aldrei að vita hvað gerist.“
Yfir 50 ára gamalt afgreiðsluborð
Allt umfang búðarinnar og uppsetning er virkilega fallegt og vel vandað til verka og minnir helst á veglegan Amerískan fjallakofa, hátt til lofts og vítt til veggja, enda var það einmitt stemningin sem þeir vildu ná fram í Midgard Outfitters. „Allt sem er að finna hér, innréttingar, mottur, borð og skrautmunir er eitthvað sem ég er búinn að vera að sanka að mér í meira en ár. Ég vissi að þetta stæði til þó ég vissi ekki alveg hvenær, svo ég ákvað að byrja að tína þetta saman svo ég yrði ekki á hlaupum með tóma búð á síðasta snúning þegar við myndum opna. Ég er með kistil frá seinni heimstyrjöldinni, gamlar ferðatöskur, afríska bongótrommu, borð sem ég hef fengið í nytjamörkuðum og hluti af afgreiðsluborðinu er yfir 50 ára gamall. Við unnum baki brotnu í 10 daga með hefil og pensla á lofti að lakka og hefla viðinn til skiptis svo hann fengi þetta „rustic“ yfirbragð. Hinrik Óskarsson vinur minn hjálpaði mikið við smíðavinnuna, pabbi (Viðar Ingólfsson) kom daglega og hjálpaði til við smíðar og mamma (Nína Björg Borgarsdóttir) sá um útstillingar á öllu í búðinni en nokkrir góðir vinir komu að uppsetningunni með mismunandi sérþekkingu og reynslu og létu þetta verða að veruleika á einum mánuði. Við erum að leita að starfsfólki í verslunina en æskilegt er að umsækendur hafi reynslu og þekkingu á útivist,“ segir Axel að lokum.