3.9 C
Selfoss

Hið vinsæla Pabbabrauð

Sigurjón Vídalín Lýðsson er sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Oft gengur mis vel að elda mat fyrir börnin okkar sem allir elska en hér er ein uppskrift sem hefur virkað einkar vel, fékk þannig nafnið Pabbabrauð.

Hvað þarf?

Gott nautakjöt (Krónan er með gott úrval af nauti sem kostar ekki annan handlegginn)
Beikon –  Ég tek alltaf frá Ali
Sósur – Krakkarnir velja Kokteilsósu og Bernaise meðan foreldrarnir elska að bæta við Shriracha sósu
Gott kál – Veljum oftast svokallaða kálvendi sem eru mjög góðir til brúks
Gott brauð – Hér má leika sér t.d. með súrdeigsbrauð, sem m.a. Krónan selur eða t.d. Kornstöng, sem þá er skorin í tvennt þ.e. tvær samlokur úr einni.
Ólifu olía – Þessi er lykill hér þ.e. Steikarolían þeirra er notuð á t.d. brauðið og Ólífuólia á Nautið
Flögusalt og pipar

Aðferðin

Ég byrja alltaf á að grilla beikonið, er mest megnis hættur að nota pönnur eða eldavélar en hér ræður hver sínu. Börnin vilja beikonið stökkt og þá er best að leyfa því að fá smá svartann lit (ekki of samt) en þegar það er tekið af grillinu þá eru beikonin sett í þurrk í t.d. eldhúspappír. En þannig verður beikonið vel stökkt. Því næst er brauðið grillað, en þá set ég Steikarolíu á hverja sneið ásamt flögusalti. Þetta gerir brauðið bragðbetra og stökkara. Að endingu er Nautið grillað, en það er auðvitað misjafnt hvað hver og einn vill hér, en ég vel að grilla það ekki lengi því kjötið hér á klakanum er það gott hráefni. Nautið tek ég svo og sker niður í þinnur, og þá er komið að því að krydda með flögusalti og pipar sem og að gluða létt yfir með Ólífuolíu. Þetta gefur kjötinu enn meira bragð.

Þegar hér er komið við sögu er næst bara að raða saman, oftast er sósa sett neðst, því næst beikon, þá kál og svo kjöt en svo toppað með annað hvort annarri sósu eða kokteil aftur. Þessu má svo skola niður með einhverju góðu, kannski er malt og appelsín gott með, hver veit.

Vonandi munu einhverjir prófa þetta og ef svo njótið. Ég ætla svo að skora á hina dásamlegu tengdamóður mína, Ingunni Lenu Bender, en hún er annáluð í eldhúsinu og hefur gert marga geggjaða rétti m.a. handa mér.

Fleiri myndbönd