-10.3 C
Selfoss

Miðbær jólanna lifnar við

Fjöldi fólks safnaðist saman í miðbæ Selfoss síðastliðið fimmtudagskvöld þegar kveikt var á jólaljósunum í bænum. „Þetta var í fyrsta sinn sem Miðbær jólanna hefur fengið að láta ljós sitt skína almennilega eftir heimsfaraldur og það komu eiginlega miklu fleiri en við bjuggumst við sem er alveg frábært. Þórir Geir og Alexander Freyr spiluðu fólk inn í jólahátíðina, Barna- og unglingakór Selfosskirkju söng nokkur lög áður en Fjóla bæjarstjóri hélt stutta tölu og taldi niður í tendrun jólaljósanna ásamt gestum,“segir Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá Sigrún Þróunarfélagi.

„Það er fullt af viðburðum á stefnuskránni í miðbænum á aðventunni og verður frábær jólastemning allar helgar í desember með tónlistaratriðum og skemmtilegum uppákomum. Jólasveinarnir verða duglegir að heimsækja okkur en þeir koma til byggða þann 10. desember og mæta þeir þá á Brúartorg með sínum einstaka hætti sem við Selfyssingar þekkjum og söknuðum mikið sl. 2 ár. Sviðið verður svo með nokkra jólatónleika allan desember sem byrja einmitt núna á morgun, föstudag, með Stuðlabandinu,“ segir Elísabet að lokum.

Fleiri myndbönd